Skólanefnd

12. fundur 10. október 2011 kl. 08:54 - 08:54
12. fundur Fræðslunefndar Bláskógabyggðar miðvikudagur 28. september 2011 Grunnskólinn Laugarvatni Grunnskóli (16:10 ? 17:10) Mætt: Bryndís Böðvarsdóttir formaður (BB), Smári Stefánsson ritari (SS), Valgerður Sævarsdóttir varaformarður (VS), Hrund Harðardóttir skólastjóri (HH), Sigurlaug Jónsdóttir fulltrúi kennara (SJ). Forfallaðir: Heiða Björg Hreinsdóttir fulltrúi foreldra (HB), Guðný Tómasdóttir áheyrnarfulltúri frá Grímsnes- og Grafningshreppi (GT). 1.  Nýir meðlimir í fræðslunefnd. Bryndís kynnti breytingar á nefndinni sem koma til af því að nefndarmenn hafa tekið til starfa við leik- og grunnskólann og minnti á trúnaðarskyldu þeirra sem sitja fundinn. 2.  Hrund sagði í stuttu máli frá sínum ferli og hvernig nýtt starf sem skólastjóri hefur farið af stað. Hrund lýsti hvernig fyrra starf, sem deildarstjóri við Sunnulækjaskóla, hefur verið góður undirbúningur fyrir skólastjórastarfið og fátt sem hefur komið henni á óvart. Í framhaldinu lýsti Hrund sinni sýn á skólastarfið. Samvinna og aukið samstarf milli kennara er það sem mikil áhersla verður lögð á og virðist henni sem almenn ánægja meðal kennara með það. Nú er vinna við nýja skólanámskrá í fullum gangi og verður hún nú sameiginleg fyrir báðar starfsstöðvar grunnskólans. Sagt var frá fjölda nemenda í bekkjardeildum á báðum starfsstöðum. Flestir kennarar eru í 100% starfi, einn hefur fengið 3 tíma á viku í yfirvinnu vegna feðraorlofs annars kennara. Fjórir kennarar eru í hlutastarfi, tveir á hvorri starfstöð. Í ár hefur verið ráðinn stuðningsfulltrúi við starfstöðina á Laugarvatni. Á Laugarvatni er aukin áhersla lögð á upplýsingatækni. Hrund segist vera ánægð með starfsfólkið sem virðist vera áhugasamt um að sækja námskeið til endurmenntunar og í því samhengi lýsti hún yfir ánægju sinni með mikið námsframboð hjá Skólaskrifstofu Suðurlands. Mikið hefur verið keypt inn af námsbókum en mikið hefur verið um nýja útgefna titla. Í haust barst skólanum gjöf frá Skálholtssókn, myndbandsupptökuvél og tilheyrandi tæki sem notuð er í kennslu og reynst hefur vel. Haustkynningarnar voru illa sóttar af foreldrum og telur Hrund að eitthvað verði að gera til að auka áhuga foreldra á að mæta. Hrund hefur borist fyrirspurn frá skólastjóra úr öðrum skóla um fyrirkomulag námsráðgjafar, í framhaldinu hefur komið upp hugmynd um ráðningu námsráðgjafa í samstarfi við aðra  skóla í uppsveitunum. Fræðslunefnd tekur vel í hugmyndina enda bundið í lög að nemendur eigi rétt á að njóta náms- og starfsráðgjafar í grunnskóla af til þess bærum sérfræðingum (Lög um grunnskóla, 2008, 13. gr.) Umræða spannst um talningu kennsludaga og það að helgileikurinn í Skálholti sé talinn tvöfaldur. Fræðslunefnd telur óásættanlegt að dagurinn sé talinn tvöfaldur þar sem helgileikurinn sé eingöngu ætlaður annarri starfsstöðinni. 3.  Skólastefnuumræðu frestað til næsta fundar. 4.  Ákveðið að tveir næstu fundir verði á þriðjudegi frá 15:10-17:10 og áætlaður einn sameiginlegur aukafundur í október til að leggja lokahönd á skólastefnu. 5.  Engin önnur mál. Leikskólar (17:10 ? 19:00) Mættir: Bryndís Böðvarsdóttir formaður (BB), Smári Stefánsson ritari (SS), Valgerður Sævarsdóttir varaformaður (VS), Agnes Heiður Magnúsdóttir fulltrúi starfsmanna (AHM), Sólveig Björg Aðalsteinsdóttir leikskólastjóri Gullkistunnar (SBA), Júlíana Tyrfingsdóttir leikskólastjóri Álfaborg (JT), Ragnhildur Sævarsdóttir fulltrúi foreldra á Gullkistu (RS). Forfallaðir: Henríetta Ósk Gunnarsdóttir fulltrúi foreldra í Álfaborg (HÓG) 1.  Bryndís kynnti breytingar á nefndinni sem koma til af því að nefndarmenn hafa tekið til starfa við leik- og grunnskólann og minnti á trúnaðarskyldu þeirra sem sitja fundinn. 2.  Innra mat leikskólanna, unnið vor 2011 A) Álfaborg. Þetta var í fyrsta skiptið sem matið var gert með rafrænum hætti sem hafði sína kosti og galla. Starfsfólkið í Álfaborg er ánægt í starfi en hefur áhyggjur af starfsaðstæðum því húsið er ekki auðvelt hvað vinnuaðstöðu varðar. Miklar áhyggjur eru vegna myglusvepps í húsinu. Foreldrar eru yfirleitt ánægðir með starfið fyrir utan húsið, lóðina (sem er verið að vinna í) og heimasíðan mætti vera líflegri. Ákveðið var að koma til skila starfi skólans hverju sinni á töflu sem foreldrar geta skoðað, mikil ánægja hefur verið með þessa tilraun. B) Gullkista. Foreldrar eru ánægðir með starfið almennt, húsnæði og lóð en gagnrýni hefur komið vegna fæðis. Núna á haustönn hefur verið brugðist við og óskaði leikskólastjóri eftir fundi með viðeigandi aðilum.  Sveitastjóri ætlaði að kalla þá aðila sem að málinu koma til skrafs og ráðagerðar. Starfsmenn virðast all ánægðir með sína stöðu í leikskólanum.  Lang oftast gefa þeir hæstu einkunn eða næst hæstu einkunn við fullyrðingunum úr könnuninni. Starfsfólkið telur samstarf við foreldra vera gott. 3.  Umræða hefur verið í samfélaginu um að myndir af börnum séu teknar af heimasíðum og notaðar í misjöfnum tilgangi. Umræða var um hvernig megi koma í veg fyrir þetta. Fundarmenn sammála um að leitast verði við að hefta aðgengi fólks með slæman tilgang, en fari myndirnar út sé í raun lítið með heimasíðu að gera þar sem notkun foreldra sé nánast eingöngu til að skoða myndir. 4.  Ákveðið að tveir næstu fundir verði á þriðjudegi frá 15:10-17:10 og áætlaður einn sameiginlegur aukafundur í október til að leggja lokahönd á skólastefnu. 5.  Önnur mál: a.  Erindi frá Brigette Brugger um tveggja daga vistun í Álfaborg. Fræðslunefnd sér ekki að hægt verði að verða við beiðninni (s.br. reglur leikskóla í Bláskógabyggð) þar sem að það veldur erfiðleikum í starfsmannahaldi auk þess sem fagfólk á sviðinu telji slíka vistun henta börnum illa. b.  Skólastjórarnir kynntu samstarfsverkefni/þróunarverkefni leikskólana og grunnskólans um undirbúning að lestrarnámi og stærðfræði sem gefist hefur mjög vel. c.  Sólvegi sagði frá heimsókn Landans (frétta- og þjóðlífsþáttur á ruv) í leikskólann fyrr í vikunni en þeir voru að taka myndir af vikulegum skógarferðum barnanna. Þátturinn verður væntanlega sýndur eftir tvær til þrjár vikur eða 9./16. október. d.  Fræðslunefnd fagnar því að nýr sandur sé kominn í sandkassann á Gullkistunni.
Er eitthvað á síðunni sem betur má fara?