Fróðleikur um Bláskógabyggð
Bláskógabyggð varð til sem sveitarfélag 9. júní 2002 við sameiningu þriggja sveitarfélaga, Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Nafn sveitarfélagsins er fengið úr Þingvallasveit og tengist birkinu og bláma vatnsins. Saga eldri sveitarfélaga verður ekki rakin hér enda spannar hún stóran hluta Íslandssögunnar.
Í Bláskógabyggð eru þrír þéttbýliskjarnar, Laugarás, Laugarvatn og Reykholt. Auk þess er blómleg byggð í dreifbýli sveitarfélagsins. Bláskógabyggð rekur tvo grunnskóla, Reykholtsskóla og Bláskógaskóla Laugarvatni og er sá síðarnefndi samrekinn leik- og grunnskóli. Einnig er leikskólinn Álfaborg í Reykholti. Á Laugarvatni rekur ríkið Menntaskólann að Laugarvatni, auk þess sem Háskóli Íslands hefur þar starfsemi.
Skrifstofur sveitarfélagsins eru í félagsheimilinu Aratungu í Reykholti. Áhaldahús er við Bjarkarbraut 2 í Reykholti. Bláskógabyggð rekur íþróttamiðstöðvar á Laugarvatni og í Reykholti þar sem eru sundlaugar, heitir pottar og íþróttahús með tækjasölum.
Helstu atvinnuvegir í Bláskógabyggð tengjast ferðaþjónustu og landbúnaði, þar á meðal garðyrkju, sem er umfangsmikil. Auk þess starfa margir við kennslu og aðra opinbera þjónustu. Í Bláskógabyggð er einnig að finna störf tengd verslun og þjónustu, svo og störf iðnaðarmanna og jarðvinnuverktaka, svo fátt eitt sé nefnt.
Fjölmargar náttúruperlur og sögustaði er að finna í Bláskógabyggð. Þekktastir þeirra eru Þingvellir, Geysir, Gullfoss, Haukadalur, Laugarvatn og Skálholt. Þingvallaþjóðgarður er einstakur staður vegna sögu og náttúru. Þar var Alþingi stofnað 930 og margir merkisviðburðir í sögu þjóðarinnar hafa átt sér stað á Þingvöllum í aldanna rás. Þingvellir voru samþykktir á náttúruminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 2004. Í þjóðgarðinum má fræðast um sögu og náttúru staðarins.
Geysir í Haukadal er án efa þekktasti goshver í heimi enda er enska orðið yfir hver "geyser" dregið af nafni hans. Gosvirknin í Geysi hefur verið mjög breytileg í gegnum aldirnar og breytist gjarnan við jarðskjálfta. Eftir stóra skjálftann árið 2000 hóf Geysir að gjósa um hríð, en óreglulega og ekki eins hátt og þegar hann var upp á sitt besta. Goshverinn Strokkur á Geysissvæðinu er mjög virkur og gýs á 5-10 mínútna fresti. Geysir hefur nú verið friðlýstur.
Gullfoss er einn af þekktustu fossum landsins. Fossinn fellur í tveimur þrepum sem eru samtals um 32 m. Gullfoss er ekki síður fallegur í klakaböndum en á góðum sumardegi. Fossinn var friðlýstur árið 1979. Sigríður Tómasdóttir í Brattholti varð fræg fyrir baráttu sína, þegar menn vildu virkja Gullfoss. Hún vann mikið afrek þegar henni tókst að afstýra því að fossinn yrði virkjaður.
Skálholt er einn af merkustu sögustöðum landsins, fyrrum höfuðstaður Íslands og sannkallað mennta- og menningarsetur í gegnum aldirnar. Í Skálholti hefur verið dómkirkja allt frá því að Ísleifur Gissurarson varð fyrstur biskup á Íslandi árið 1056, en núverandi kirkja var vígð 1963. Skóli var stofnaður í Skálholti á 11. öld. Þar er nú fræðslusetur kirkjunnar, þar sem haldin eru námskeið, málþing, ráðstefnur, tónleikar og kyrrðardagar.
Á Laugarvatni er Vígðalaug, sem dregur nafn sitt af því að þar voru menn skírðir eftir kristnitökuna á Þingvöllum árið 1000. Héraðsskólinn á Laugarvatni er falleg og merk bygging, skólinn var byggður árið 1928 og teiknaði Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, húsið.