Vinnuverndarvikan

Fréttir 18.10.2007
Fréttatilkynning: Vinnuverndarvikan 2007 verður 22. til 26. október Vinnuverndarvikan 2007 fjallar um orsakir líkamlegra álagseinkenna. Líkamleg álagseinkenni valda ekki aðeins einstaklingum þjáningum og fjárhagslegum skaða heldur eru þau líka kostnaðarsöm fyrirtækjum og efnahagslífi þjóðarinnar. Allir geta þjáðst af líkamlegum álagseinkennum, en það má koma í veg fyrir þau með réttum aðferðum. Slagorð vikunnar er hæfilegt álag er heilsu best. Slagorðið vísar til þess að bæði of mikið álag og of lítið álag er óholt, allt er best í hófi. Hvað eru líkamleg álagseinkenni? Líkamleg álagseinkenni er samheiti yfir mikinn fjölda heilsufarsvandamála en þau helstu eru: Bakverkir, verkir í hálsi, herðum, öxlum og handleggjum. Líkamleg álagseinkenni geta átt við mein í öllum vöðvum og liðum líkamans. Algeng líkamleg álagseinkenni eru t.d. vöðvabólga, bakverkir, liðverkir og sinaskeiðabólga. Helstu orsakir líkamlegra álagseinkenna eru: Hönnun vinnustaðarins, óhentugar vinnustellingar eða hreyfingar. Líkamlegt erfiði og einhæfar, síendurteknar hreyfingar. Skipulag vinnunnar. Andlegir og félagslegir þættir á vinnustað. Helstu viðburðir í vinnuverndarvikunni eru:
  • Ráðstefnan Hæfilegt álag er heilsu best sem fjallar um varnir gegn líkamlegum álagseinkennum verður á Grand Hótel 23. október n.k. kl. 13.00 ? 16.00. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur ókeypis. Þátttaka tilkynnist til Vinnueftirlitsins í síma 550 4600 eða á netfang gudrun@ver.is. Dagskrá ráðstefnunnar má sjá hér www.vinnueftirlit.is.
  • Eftirlitsmenn Vinnueftirlitsins heimsækja valda vinnustaði og verður sjónum einkum beint að verslunum og flutninga- og lagerfyrirtækjum. Dreift verður veggspjaldi og bæklingi með gátlista um líkamsbeitingu.
  • Viðurkenningar verða veittar fyrirmyndar-fyrirtækjum sem hafa m.a. lokið gerð áhættumats vegna líkamlegs álags og vinnuaðstæðna.
  • Fjölda stærri fyrirtækja hefur verið sent veggspjald og hugmyndalisti að aðgerðum til að styðjast við í vinnuverndarvikunni.
  • Vinnueftirlit ríkisins hvetur atvinnurekendur og starfsfólk til að taka virkan þátt í vinnuverndarvikunni. Fræðsluefni og hugmyndir má m.a. sækja á vefsíðu Vinnueftirlitsins, www.vinnueftirlit.is, hugmyndalisti fyrir vinnustaði.
  • Aðilar vinnumarkaðarins munu kynna vinnuverndarvikuna og hvetja atvinnurekendur og starfsfólk til góðra verka í vikunni.
  • Hvatningarbréf um þátttöku var sent markhópum og hönnuðum vinnustaða til að árétta mikilvægi starfs þeirra m.t.t. vinnuverndarsjónarmiða.
  • Vinnueftirlitið hvetur alla til að kynna sér heimasíðu vinnuverndarvikunnar.
  • http://www.vinnueftirlit.is/vinnueftirlit/is/gagnabrunnur/evropskar_vinnuverndarvikur/vinnuverndarvikan_2007/