Úrræði Vinnumálastofnunar fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd

Fréttir 12.01.2023
Á aukafundi sveitarstjórnar sem haldinn var í gær var rætt um fyrirhugaða nýtingu Vinnumálastofnunar á húsnæði HÍ á Laugarvatni fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Fulltrúi Vinnumálastofnunar kom inn á fundinn og kynnti stöðu mála og svaraði spurningum. Fyrir liggur að það mun taka lengri tíma en upphaflega var áætlað að taka húsnæðið í notkun, en tímasetningar liggja enn ekki fyrir. Þá liggur ekki ljóst fyrir hver samsetning hópsins verður. Íbúafundur verður haldin áður en úrræðið verður tekið í notkun, tímasetning hans verður ákveðin í næstu viku. Fundurinn verður auglýstur á heimasíðu sveitarfélagsins og samfélagsmiðlum. Bókun sveitarstjórnar frá fundinum er hér: Vinnumálastofnun, sem sér um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd, hefur ákveðið að taka boði Háskóla Íslands um að nýta húsnæði HÍ á Laugarvatni til búsetu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og var Bláskógabyggð tilkynnt um framangreint hinn 5. janúar s.l. Í húsnæði HÍ eru 30 2ja manna herbergi og sameiginleg rými. Umsækjendur dvelja í úrræðinu á meðan umsókn er til meðferðar hjá Útlendingastofnun, en málsmeðferð getur tekið nokkra mánuði. Þegar umsækjendur hafa fengið niðurstöðu eiga þeir rétt á þjónustu Vinnumálastofnunar í allt að átta vikur eftir að niðurstaða liggur fyrir, en á þeim tíma leitast Fjölmenningarsetur við að para viðkomandi aðila við sveitarfélag sem hefur samþykkt að vera þátttakandi í samræmdri móttöku flóttafólks. Hvað varðar þjónustu á sviði leik- og grunnskóla gilda ákvæði laga um útlendinga og reglugerðar sem sett hefur verið á grundvelli þeirra. Verði börn meðal þeirra sem dvelja í úrræðinu mun Vinnumálastofnun sækja um skólavist fyrir þau. Greiðslur frá Vinnumálastofnun vegna grunn- og leikskóla eru samkvæmt viðmiðunargjaldi Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna grunnskólanáms eða leikskóladvalar utan lögheimilissveitarfélags. Hvorki liggur ljóst fyrir hver samsetning hópsins verður né hvenær fyrstu einstaklingarnir koma til dvalar á Laugarvatni, en ljóst er að það verður ekki eins fljótt og áætlað var í upphafi. Vinnumálastofnun hefur samþykkt að kynna verkefnið fyrir íbúum og verður boðað til íbúafundar í því skyni. Gísli Davíð Karlsson, starfsmaður Vinnumálastofnunar, kom inn á fundinn kl. 16:30 í gegnum fjarfundabúnað. Gerði hann grein fyrir stöðu málsins og svaraði spurningum fundarmanna. Gísli Davíð vék af fundi kl. 17:10. Möguleikar til að þjónusta grunn- og leikskólabörn á Laugarvatni eru takmarkaðir. Af hálfu Bláskógabyggðar er því hvatt til þess að kannaður verði sá möguleiki að nýta kennslustofur í húsnæði HÍ til að þjónusta börn. Ljóst er að leita verður sérstakra lausna til að sjá börnum fyrir lögboðinni þjónustu og taka verður tillit til þess að lítill grunn- og leikskóli með 58 nemendur á grunnskólastigi og 22 nemendur á leikskólastigi og mönnun í samræmi við það hefur takmörkuð úrræði til að mæta fyrirvaralaust kröfum um þjónustu við þann hóp sem dvelja kann í úrræðinu á Laugarvatni. Af hálfu Bláskógabyggðar er lögð áhersla á að þess verði gætt að húsakostur sá sem umsækjendum um alþjóðlega vernd verði boðinn til búsetu uppfylli kröfur eftirlitsaðila til slíks húsnæðis.