Uppsveitabrosið 2015

Fréttir 13.04.2016
Bros frá Uppsveitunum er viðurkenning sem veitt er árlega einstaklingi eða fyrirtæki. Að þessu sinni var það Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands sem hlaut brosið. Sigurður stýrir Háskólafélagi Suðurlands styrkum höndum og góð samvinna er aðalsmerki starfsmanna allra.   Megin tilgangur félagsins er að auka búsetugæði og styrkja efnahag á Suðurlandi með uppbyggingu þekkingarsamfélags. Fjölmörg verkefni eru í gangi hjá félaginu m.a. þróun og uppbygging náms sem stuðlar að nýsköpun í matvælaiðnaði og í ferðaþjónustu í samstarfi við erlenda háskóla. Félagið býður einnig upp á þjónustu fyrir fjarnema og aðstöðu fyrir háskólanema í Fjölheimum á Selfossi.   Þar sem brosið er óáþreifanlegt fylgir því ævinlega hlutur sem handverks- eða listamaður í Uppsveitunum býr til hverju sinni. Í ár er það gripur úr listasmiðju Sólheima og listamaðurinn er Kristján Már Ólafsson. Einnig er gaman eð geta þess að logo Uppsveitabrosins er hannað af Ingunni Jónsdóttur starfsmanni Háskólafélagsins. Markmiðið er að senda út jákvæð skilaboð og vekja athygli á því sem vel er gert. Uppsveitamenn leggja áherslu á góða samvinnu og jákvæðni og það að senda út bros minnir einnig á það.     Mynd : Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi Uppsveita Árnessýslu sem afhenti brosið