Uppsveitabrosið 2009
Fréttir
07.04.2010
Það er Hreinn Óskarsson skógarvörður sem hlýtur ?Uppsveitabrosið 2009? fyrir hönd Skógræktar ríkisins á Suðurlandi.
Skógarnir eru orðnir vinsælt útivistarsvæði allt árið um kring, jafnt fyrir heimamenn sem ferðamenn. Öll samvinna við Skógræktina hefur verið einstaklega góð í uppsveitunum. Haukadalsskógur og Þjórsárdalsskógur eru vinsæl útivistarsvæði og þar er unnið metnaðarfullt starf við uppbyggingu.
Í skógunum eru m.a. merktir göngustígar og einnig sérhannaðir stígar fyrir hjólastóla.
Uppsveitabrosið sjálft er óáþreifanlegt, en því fylgir ávallt hlutur sem handverks- eða listamaður í Uppsveitum Árnessýslu býr til hverju sinni.
Að þessu sinni er það listakonan Anna Magnúsdóttir á Flúðum og verkið er máluð mynd af tré í haustlitum, sem ber heitið ?Úr sálargarðinum ?
Það er vel við hæfi að færa Skógræktinni slíkt tré.
"Uppsveitabrosið" er viðurkenning sem veitt er árlega einstaklingi eða fyrirtæki.
Bros frá Uppsveitunum til þeirra sem hafa lagt ferðaþjónustunni á svæðinu lið á jákvæðan uppbyggilegan hátt og stuðlað að samvinnu. Markmiðið er að senda út jákvæð skilaboð og vekja athygli á því sem vel er gert. Hugmyndin kviknaði í stefnumótunarvinnu 2003 og er þetta í sjötta sinn sem brosið er afhent.