Umhverfisverðlaun Bláskógabyggðar 2014

Fréttir 27.08.2014
Það hefur verið stefna Umhverfisnefndar Bláskógabyggðar að verðlauna þá sem okkur þykir skara fram úr. Alltaf er erfitt að velja úr og okkur langar jafnvel að verðlauna miklu fleiri en við gerum.      Að þessu sinni var ákveðið að verðlauna úr 3 flokkum en aðeins 1 aðila í hverjum flokki. Snyrtilegasti heimilisgarðurinn, snyrtilegasta fyrirtækið og sérstök hvatningaverðlaun. 18890_Umhverfisv. Blask_2014 Snyrtilegasti heimilisgarðurinn er að þessu sinni Ey að Laugarvatni, eigendur Hörður Bergsteinsson og Elín Bachmann Haraldsdóttir Við húsið Ey er garður sem þau Bergsteinn Kristjónsson og Sigrún Guðmundsdóttir ræktuðu. Sonur þeirra Hörður Bergsteinsson og kona hans Elín Bachmann Haraldsdóttir búa þar núna og hlú að garðinum. Hann þykir mjög snyrtilegur og stílhreinn. Snyrtilegasta fyrirtækið er Gufuhlíð í Reykholti, eigendur eru Hildur Ósk Sigurðardóttir og Helgi Jakobsson Gufuhlíð er stærsta garðyrkjustöð landsins sem framleiðir agúrkur. Þau Helgi og Hildur hafa á síðustu árum lagt metnað í að gera umhverfi stöðvarinnar einstaklega snyrtilegt og hreinlegt og eru þau góðir fulltrúar matvælaframleiðslunnar hér í sveit. Hvatningaverðlaun fá ábúendur á Ljósalandi í Laugarási, þau mæðgin Ragnheiður Jónasdóttir, Böðvar Þór Unnarsson og Jónas Unnarsson Á Ljósalandi  var í upphafi rekin garðyrkjustöð en þó nokkuð er síðan hún var aflögð og hefur verið í allnokkuri niðurníðslu um árabil. Nýir eigendur síðustu missera hafa lyft grettistaki í umhverfismálum og endurnýjun allri svo eftir hefur verið tekið. Umhverfisnefnd vill því að þessu sinni afhenda eigendum Ljósalands sérstök Hvatningarverðlaun, það er hægt að snúa hlutunum á betri veg með dugnaði og áræðni.   Sigríður J. Sigurfinnsdóttir, Formaður umhverfisnefndar Bláskógabyggðar   Myndatexti: Umhverfisverðlaun Bláskógabyggðar voru afhent á hátíðinni Tvær úr Tungunum sem fram fór um sl. helgi: Frá hægri: Böðvar Þór Unnarsson Ljósalandi, Jakob Helgason sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd Helga og Hildar í Gufuhlíð, Elín Bachmann Haraldsdóttir Ey ásamt barnabörnum og Sigríður J. Sigurfinnsdóttir formaður umhverfisnefndar Bláskógabyggðar.