Tónleikar My Sweet Baklava á Laugarvatni
Fréttir
10.11.2010
Hljómsveitin My Sweet Baklava heldur sína fyrstu tónleika í nýja veitinga- og samkomuhúsinu á Laugarvatni (við hliðina á Samkaupum) föstudagskvöldið 12.nóvember. Hljómsveitin var sett saman síðla sumars að frumkvæði Valgerðar Jónsdóttur, söngkonu og tónmenntakennara sem búsett er á Laugarvatni. Valgerður, sem einnig leikur á píanó, hefur um árabil samið lög og texta ásamt eiginmanni sínum Þórði Sævarssyni gítarleikara og hafði þau lengi dreymt um að setja saman hljómsveit sem gæti flutt þessi lög. Þau hjónin fengu svo til liðs við sig trommuleikarann Smára Þorsteinsson frá Reykholti og bassaleikarann Svein Rúnar Grímarsson. Sveinn er búsettur í Mosfellsbænum og því má segja að tilkoma hins nýja Lyngdalsheiðarvegar hafi verið hljómsveitarmeðlimum kærkomin, en æfingar fara fram á Laugarvatni.
Tónlistin sem My Sweet Baklava leikur er fjölbreytt popp / rokk blanda og eru textarnir á íslensku og ensku. Á tónleikunum 12.nóvember koma einnig fram þau Vigdís Garðarsdóttir, sem mun syngja bakraddir og Jón Trausti Hervarsson sem leikur á saxófón. Tónleikarnir hefjast kl.21 og aðgangseyrir er 1000 krónur. Allir eru hvattir til að mæta og heyra glænýja sveit flytja glænýja tónlist.