Tilkynning vegna reiðleiða á Kili

Fréttir 14.07.2021
Sveitarfélagið Bláskógabyggð og Landsamband hestamannafélaga vilja árétta þær reglur sem gilda um umferð ríðandi manna um Biskupstungnaafrétt/Kjöl.   LH í samráði og góðu samstarfi við Bláskógabyggð og ýmis félagasamtök innan sveitarinnar s.s hestamannafélagið Loga og Landgræðslufélag Biskupstungna hafa kortlagt og merkt allar reiðleiðir á Biskupstungnaafrétti/Kili. Ekki er heimilt að fara með rekstra um sumar reiðleiðirnar heldur skulu þeir sem um þær fara hafa hesta sína í taumi.   Svæðin sem um ræðir eru ýmist landgræðslusvæði þar sem bændur í Biskupstungum hafa unnið að landbótum í áratugi eða gróin svæði sem fljótt láta á sjá fari þar um hópar sem telja tugi hrossa og þeim jafnvel beitt, sem því miður eru dæmi um.   Það er bagalegt fyrir hestamennskuna í landinu ef fáir aðilar geta ekki hlýtt þeim reglum sem settar hafa verið í samráði og sátt þeirra sem fara með umsjón svæðisins og heildarsamtaka hestamanna.   Sýnum ábyrgð í ferðum okkar um hálendið og fylgjum þeim reglum sem þar gilda.   Landsamband Hestamannafélaga og Bláskógabyggð.