Svæðisskipulag Suðurhálendis 2022-2042
Innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur staðfest Svæðisskipulag Suðurhálendis 2022-2042, sem markar mikilvægt skref í skipulagsmálum og sjálfbærri þróun landsvæðisins. Með undirrituninni öðlast svæðisskipulagið lagalegt gildi og verður leiðarljós fyrir stefnumótun og framkvæmdir á svæðinu næstu ár.
Svæðisskipulagið nær yfir hálendishluta níu sveitarfélaga á Suðurlandi: Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra, Rangárþings ytra, Ásahrepps, Skeiða-og Gnúpverjahrepps, Hrunamannahrepps, Bláskógabyggðar og Grímsnes- og Grafningshrepps. Auk þess hafa Flóahreppur og Sveitarfélagið Árborg tekið þátt í verkefninu.
Svæðisskipulagið var unnið í náinni samvinnu við ofangreind sveitarfélög, landeigendur, hagsmunaaðila og almenning. Meginmarkmið þess er að tryggja jafnvægi á milli verndunar náttúruauðlinda og aukinnar nýtingar til ferðaþjónustu, útivistar og annarrar landnýtingar.
Um er að ræða nýtt svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið en þar er m.a. mörkuð sameiginleg stefna um gerð og gæði þjóðvega, flokkun og uppbyggingu ferðaþjónustustaða og verndun landslagsheilda og sérstæðrar náttúru.
Meginmarkmið svæðisskipulagsins eru:
- Sterkir innviðir: Uppbygging og viðhald innviða til að bæta aðgengi og öryggi á svæðinu.
- Umhyggja fyrir auðlindum: Verndun náttúruauðlinda og trygging sjálfbærrar nýtingar þeirra.
- Ábyrg nýting auðlinda: Jafnvægi milli verndunar og nýtingar til ferðaþjónustu, útivistar og annarrar landnýtingar.
- Aðgerðir fyrir loftslagið: Aðlögun að loftslagsbreytingum og mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum þeirra.
Formaður svæðisskipulagsnefndarinnar Helgi Kjartansson oddviti Bláskógabyggðar segir að það sé stór áfangi í skipulagsmálum á Suðurlandi að svæðisskipulag Suðurhálendis skuli hafa öðlast gildi. Þau sveitarfélög á Suðurlandi sem standa að svæðisskipulaginu unnu mjög vel saman í allri þessari vinnu og sýna það með þessu hvers megnug þau eru þegar þétt er unnið saman. Með svæðisskipulaginu eru sveitarfélög á Suðurlandi að marka sér sameiginlega stefnu varðandi skipulagsmál á hálendinu. Skipulagsmál eru einn stærsti málaflokkurinn á sveitarstjórnarstiginu sem þarf að standa vörð um og því er það sérstakt fagnaðarefni að sveitarfélögin séu komin með staðfest svæðisskipulag fyrir Suðurhálendið. Það er svo aldrei að vita nema næstu skref verði að marka sameiginlega stefnu með skipulagsmál á láglendinu.