Suðurlandssýning 19. mars í Ráðhúsinu í Reykjavík

Fréttir 09.03.2011
Fréttatilkynning. Laugardaginn 19. mars nk.verður í Ráðhúsinu í Reykjavík Suðurlandssýning undir yfirskriftinni ,,Suðurland já takk".  Þar fylkja Sunnlendingar liði og kynna það sem er efst  á baugi í fjórðungnum. Það eru Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, menningarfulltrúi Suðurlands og Markaðsstofa Suðurlands sem leiða þetta verkefni ásamt fjölda annarra s.s. ferðamálafulltrúum,  sveitarfélögum, handverkshópum, klösum og ferðaþjónustuaðilum á Suðurlandi. Tilgangur sýningarinnar er að auka vitund og vitneskju almennings um Suðurland og allt það sem svæðið hefur uppá að bjóða. Markmiðið er að spegla allan fjölbreytileikann í landshlutanum, því munu um sextíu aðilar sem tengjast atvinnulífi og menningu tefla fram flestu því besta sem finna má á Suðurlandi á sýningunni. Gott aðgengi er að Suðurlandi úr öðrum landshlutum og þar eru margir fjölsóttustu ferðamannastaðir á landinu. Þá gefst gestum kostur á að kynna sér náttúru svæðsins í máli og myndum en Suðurland hefur ætíð verið rómað fyrir fegurð. Á Suðurlandssýningunni viljum við  kynna nýtt sjónarhorn á Suðurland, leiða gesti sem víðast og gefa þeim innsýn í fjölbreytta flóru nýrra afþreyingarmöguleika,  gistingar, veitingastaða, handsverkhópa og ýmiss konar framleiðslu. Sýningin í Ráðhúsi Reykjavíkur er opin almenningi frá klukkan 11 til 16 laugardaginn 19. mars nk. Markaðsstofa Suðurlands Atvinnuþróunarfélag Suðurlands Menningarráð Suðurlands