Skipulagsauglýsing

Fréttir 28.11.2024

AUGLÝSINGAR UM SKIPULAGSMÁL

Ásahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur

Samkvæmt 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér kynntar tillögur aðalskipulagsbreytinga eftirfarandi skipulagsáætlana:

  1. Holtamannaafréttur; Búðarháls; Skilgreining efnistökusvæðis; Aðalskipulagsbreyting – 2405016

Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti á fundi sínum þann 20. nóvember 2024 að kynna aðalskipulagsbreytingu er varðar skilgreiningu efnistökusvæðis á austanverðum Búðarhálsi, milli Tungnaár og vegarins að Sporðöldustíflu. Efnistökusvæðið er á gildandi deiliskipulagi Búðarhálsvirkjunar, merkt E8. Stærð námu verði 2,3 ha og heimiluð efnistaka allt að 49.000 m3.

2. Búrfellshólmi, Búrfell; Nýtt efnistökusvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2406006

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sínum þann 20. nóvember 2024 að kynna aðalskipulagsbreytingu sem tekur til skilgreiningar á nýju efnistökusvæði á Búrfellshólmum austan Búrfells, svæðið er í beinu framhaldi af núverandi efnistökusvæði E33. Áætluð efnistaka er allt að 4,5 milljón m3 og að efnisnám nemi um 80.000-300.000 m3 á ári í 10-15 ár. Stærð svæðis er 189 ha. Um er að ræða vikurnámu og er vikurinn einkum unninn til útflutnings.

Samkvæmt 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér kynnt tillaga eftirfarandi deiliskipulagsáætlunar:

3. Minna-Mosfell L168262; Öldusteinstún - frístundabyggð; Deiliskipulag – 2410081

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti á fundi sínum þann 20. nóvember 2024 að kynna nýtt deiliskipulag sem tekur til hluta frístundasvæðis F82 í landi Minna-Mosfells. Um er að ræða 1. áfanga af fjórum innan skipulagssvæðisins. Gert er ráð fyrir skilgreiningu á 21 lóð í fyrsta áfanga á bilinu 7.234 - 15.797 fm að stærð. Innan hverrar lóðar er gert ráð fyrir heimild fyrir frístundahúsi auk þess sem heimilt er að reisa geymslu, svefnhús eða gróðurhús innan byggingareits og hámarksnýtingarhlutfalls 0,03.

Samkvæmt 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru hér auglýstar tillögur aðalskipulagsbreytinga eftirfarandi skipulagsáætlana:

4. Áshildarmýri; Vatnsból og Vatnsverndarsvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2406076

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sínum þann 24. október 2024 aðalskipulagsbreytingu sem tekur til nýs vatnsverndarsvæðis í Áshildarmýri. Vatnsbólið sem vatnsverndarsvæðið tekur til er í Flóahreppi í landi Hjálmholts og er lögð fram sambærileg tillaga aðalskipulagsbreytingar vegna skilgreiningar á vatnsbóli innan Flóahrepps.

5. Holtamannaafréttur L221893; Sigöldustöð; Efnistökusvæði; Aðalskipulagsbreyting – 2405114

Hreppsnefnd Ásahrepps samþykkti á fundi sínum þann 20. nóvember 2024 að auglýsa breytingu á aðalskipulagi Ásahrepps 2020-2032 vegna efnistökusvæðis við Sigöldustöð. Með breytingunni felst að skilgreint verði nýtt efnistökusvæði við aðrennslisskurð Sigöldustöðvar. Efni hefur verið tekið af svæðinu við framkvæmdir tengdar virkjunum og vatnsmiðlun, en náman er ekki á skipulagi. Efni úr námunni verður einkum nýtt við framkvæmdir í tengslum við fyrirhugaða stækkun Sigöldustöðvar. Stærð efnistökusvæðis verður um 1 ha og heimilt verður að vinna allt að 49.000 m3 af efni.

6. Aðalskipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps; Minni-Ólafsvellir; Aðalskipulagsbreyting – 2310031

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sínum þann 24. október 2024 að auglýsa breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2017-2029. Aðalskipulagsbreytingin nær yfir hluta Minni-Ólafsvalla L166482. Gert er ráð fyrir að hluta landbúnaðarsvæðis er breytt í íbúðarbyggð og verslunar- og þjónustusvæði. Heimilt er að vera með íbúðarhús og gestahús með gistingu fyrir allt að 70 gesti. Einnig er heimilt að vera með ýmiss konar afþreyingu, einkum tengda hestum.

Samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst tillaga eftirfarandi deiliskipulagsáætlunar:

7. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum; Frá Haki að Leirum; Deiliskipulag – 1904036

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi sínum þann 18. nóvember 2024 að auglýsa tillögu nýs deiliskipulag ásamt óverulegri breytingu á núverandi deiliskipulagi sem tekur til Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Deiliskipulagið felur í sér að skilgreina fyrirkomulag vega, bílastæða, útivistar- og almenningssvæða, göngustíga og gangstétta ásamt mögulegri uppbyggingu svæðisins til framtíðar. Þá verður gerð grein fyrir lóðarmörkum, byggingarreitum, nýtingarhlutfalli og öðrum þeim ákvæðum sem ástæða er til að skilgreina í deiliskipulagi. Helstu markmið skipulagsins er að tryggja vernd einstakrar náttúru og menningarminja Þingvalla og bæta aðgengi að og um vesturhluta þjóðgarðsins og auka þjónustu við gesti hans. Samhliða vinnu við deiliskipulag er gerð breyting á gildandi deiliskipulagi sem felst í því að sá hluti deiliskipulagsins sem nær til svæðis austan við Þingvallaveg ásamt svæði sem nær til bílastæða á bökkum Hrútagilslækjar vestan Þingvallavegar er felldur úr gildi auk deiliskipulags sem tekur til Valhallar- og þingplans. Niðurfelling þessara hluta skipulagsáætlana svæðisins er gerð samhliða samþykkt þessa deiliskipulags en þeir skilmálar sem við eiga eru nýttir innan nýs deiliskipulags. Skipulagstillagan er lögð fram í formi greinargerðar og yfirlitsuppdráttar auk þess sem lagðir eru fram þrír deiliskipulagsuppdrættir af hverju svæði fyrir sig sem skiptast í suðurhluta, miðhluta og norðurhluta.

Ofangreindar skipulagstillögur liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa, Hverabraut 6, Laugarvatni á skrifstofutíma embættisins. Að auki er hægt að nálgast tillögur á vefslóðinni www.utu.is og á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar skipulagsgatt.is/. Þá eru gögnin aðgengileg á heimasíðum sveitarfélaganna www.asahreppur.is, www.blaskogabyggd.is, www.gogg.is og www.skeidgnup.is.

Mál 1 – 3 innan auglýsingar eru mál í kynningu frá 28. nóvember með athugasemdafresti til og með 20. desember 2024.

Mál 4 – 7 innan auglýsingar eru mál í auglýsingu frá 28. nóvember með athugasemdafrest til og með 10. janúar 2025.

Athugasemdum og ábendingum skal skila inn á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar www.skipulagsgatt.is undir viðeigandi máli. Einnig má koma á framfæri athugasemdum og ábendingum skriflega á skrifstofu UTU Hverabraut 6, Laugarvatni eða með tölvupósti á netfangið skipulag@utu.is.

Fyrirspurnir má senda á netfang UTU skipulag@utu.is.

Vigfús Þór Hróbjartsson
Skipulagsfulltrúi Umhverfis- og Tæknisviðs Uppsveita