Skipulagning vegna samkomubanns

Fréttir 16.03.2020
Síðustu daga hefur verið unnið að því að laga starfsemi og þjónustu Bláskógabyggðar að þeim veruleika sem blasir við vegna útbreiðslu kórónaveiru, Covid-19. Bláskógabyggð, líkt og önnur sveitarfélög á Suðurlandi, býr að því að á síðustu árum hefur verið lögð mikil áhersla á að efla starf að almannavörnum, m.a. með vinnslu viðbragðsáætlana, æfingum og þjálfun viðbragðsaðila. Unnið hefur verið í samstarfi við lögreglustjórann á Suðurlandi og hafa sveitarfélögin og lögregla haft sameiginlegan verkefnastjóra sem vinnur að þessum málum. Við undirbúning þess að takast á við Covid-19 hefur komið í ljós að mikil samheldni er ríkjandi og að allir vilja leggja sig fram um að leysa verkefnið með áherslu á að gæta að almannahag. Á morgun, mánudag, verður starfsdagur í grunn- og leikskólum í Bláskógabyggð. Unnið verður að skipulagi skólastarfs út frá þeim reglum sem hafa verið settar um samkomubann. Af hálfu sveitarfélagsins hefur verið leitast við að fara eftir tilmælum almannavarnadeildar RLS og Landlæknis um varnir gegn smiti og hafa þegar verið gerðar ýmsar ráðstafanir í starfsemi sveitarfélagsins. Reglum um takmarkanir á skólahaldi vegna samkomubanns verður einnig fylgt í einu og öllu og óhjákvæmilegt er að það mun leiða til þess að starfsemi grunn- og leikskóla verður með öðru sniði en venjan er. Munu skólastjórar leik- og grunnskóla kynna foreldrum skipulag starfseminnar að loknum starfsdegi. Nú þegar hefur verið tilkynnt um breytingar á starfsemi mötuneytis í Aratungu, en það er ekki lengur opið fyrir kostgangara og eldri borgara. Eldri borgurum er boðið upp á að fá mat sendan heim. Þá verða breytingar á starfsemi skrifstofu sveitarfélagsins o.fl., en allt verður það nánar kynnt á morgun. Verði breytingar á fyrirmælum yfirvalda, eða komi upp veikindi, kann að koma til frekari breytinga á starfsemi og þjónustu með skömmum fyrirvara og verða þær þá kynntar sérstaklega. Íbúar eru því hvattir til að fylgjast með tilkynningum frá sveitarfélaginu næstu vikurnar. Almennar upplýsingar um faraldurinn má finna á vefnum www.covid.is. Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri