Skálholtsorðan sem gleymdist að afhenda

Fréttir 12.03.2010
Skálholtsskóla sunnudaginn 14. mars kl. 14 Skálholtsorðan er viðfangsefni viðburðar marsmánaðar hjá Uppliti ?  Menningarklasa uppsveita Árnessýslu, sem haldinn verður í  Skálholtsskóla sunnudaginn 14. mars kl. 14. Þá greinir Skúli Sæland sagnfræðingur frá rannsókn sinni á sögu Skálholtsorðunnar en í ljós hefur komið að orðuþegar fengu ekki allir heiðursmerkið. Þegar Skálholtskirkja var vígð árið 1963 stóð til að þakka sérstaklega fjölda einstaklinga, innlendum sem erlendum, sem lagt höfðu hönd á plóg við að endurreisa staðinn. Sérstök nefnd, skipuð Sigurbirni Einarssyni, Steingrími Steinþórssyni og Baldri Möller, lét útbúa orðu til að veita fólki sem nefndin valdi sérstaklega. Alls voru valdir 104 aðilar sem Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, átti síðan að veita orðuna við hátíðlega athöfn. Á meðal tilnefndra voru þekktir stjórnmálamenn, kirkjuhöfðingjar og embættismenn en einnig Sunnlendingar og Tungnamenn sem stutt höfðu við byggingu Skálholtskirkju með ráðum og dáð. Má þar m.a. nefna Guðmund Indriðason á Lindarbrekku, Þorstein Sigurðsson á Vatnsleysu, Þórð Kárason á Litla-Fljóti og Sigurð Pálsson, síðar vígslubiskup. Við rannsókn á endurreisn Skálholts hefur hins vegar komið í ljós að svo virðist sem að nokkrir einstaklingar hafi aldrei fengið Skálholtsorðuna og að afhending hennar hafi ekki verið með þeim hætti sem til stóð. Skúli Sæland hefur rannsakað endurreisn Skálholts á síðustu öld og á sunnudaginn mun hann greina frá rannsókn sinni á sögu þessarar sérstöku orðu og reyna að svara þeim spurningum sem vakna um hvað hafi farið úrskeiðis við afhendingu hennar. Í Skálholti stendur nú yfir sýningin Endurreisn Skálholts, sem Skúli er höfundur að. Upplagt er fyrir gesti að skoða hana í leiðinni en sýningin stendur út apríl. Áður en erindið hefst leikur Jón Bjarnason organisti nokkur lög á píanó ? og að erindi loknu er hægt að fá kaffi í Skálholtsskóla. Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.