Seinni forkeppni Uppsveitastjörnunnar á Flúðum 19. janúar
Fréttir
02.01.2013
Enn geta hæfileikaríkir uppsveitungar á öllum aldri skráð sig til leiks í seinni forkeppni Uppsveitastjörnunnar, hæfileikakeppni Upplits, sem haldin verður í félagsheimilinu á Flúðum laugardaginn 19. janúar kl. 15-17.
Tónlistaratriði voru áberandi í fyrri forkeppninni, sem fram fór á Borg í Grímsnesi 24. nóvember sl. Öll voru atriðin glæsileg og komust þrjú þeirra áfram í úrslit. Tekið skal fram að allskyns atriði eru velkomin til keppni og því um að gera að láta hugmyndaflugið ráða för.
Eins og í fyrri keppninni munu frumleiki, skemmtun og sköpunargleði vega þungt þegar atriði eru valin í úrslit. Veitt verða verðlaun tveimur til þremur atriðum sem komast áfram í úrslit og allir þátttakendur fá auk þess viðurkenningu. Úrslitakeppnin verður svo í Aratungu í mars.
Uppsveitafólk og aðrir gestir eru hvattir til að mæta, fylgjast með góðri skemmtun og hvetja sínar stjörnur áfram. Boðið er upp á hæfileikaríka keppendur, góðar veitingar, skemmtilega dómnefnd og fyrirtaks stemmningu. Aðgangseyrir er aðeins 500 krónur og veitingar verða til sölu við vægu verði.
Menningarráð Suðurlands styður Uppsveitastjörnuna ? og einnig sveitarfélögin í uppsveitunum, sem leggja til félagsheimilin fyrir keppnirnar.
Skráning stendur til 11. janúar á upplit@upplit.is og í síma 898 1957.
Ekki missa af þessu ? allir velkomnir!
Fylgist með á www.upplit.is og á Facebook-síðu Upplits.