Samgöngumál í Bláskógabyggð

Fréttir 14.09.2022
Fulltrúar Vegagerðarinnar, þau Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri, Svanur Bjarnason, svæðisstjóri, og Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs, heimsóttu Bláskógabyggð í dag. Helgi Kjartansson, oddviti, Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri, og Kristófer A. Tómasson, sviðsstjóri, tóku á móti þeim. Aðstæður við gömlu brúna yfir Tungufljót voru skoðaðar, auk þess sem Einholtsvegur var ekinn og fundað í Torfhúsunum á Einholtsmelum. Sérstaklega var rætt um viðhald stofnvega og ástand tengivega, þar á meðal Einholtsvegar, og áhersla lögð á að hann verði byggður upp og lagður slitlagi. Auk þess var rætt um nauðsyn þess að bæta vetrarþjónustu og laga hana að þeirri miklu umferð sem er á mörgum stofnleiðum innan sveitarfélagsins, td. á Skálholtsvegi. Vegagerðin var einnig hvött til þess að hefja vinnu við umhverfismat, sem er forsenda fyrir endurbótum á Kjalvegi og færslu vegarins suðurfyrir Geysi. Ólafur Guðmundsson kynnti úttekt á ástandi vega í Bláskógabyggð. Með auknum straumi ferðamanna eykst álag á vegi innan sveitarfélagsins sem liggja að fjölsóttum ferðamannastöðum og er nauðsynlegt að huga áfram að styrkingu þeirra vega. Góðar umræður urðu á fundinum. Bláskógabyggð hefur átt gott samstarf við Vegagerðina í gegnum tíðina og þakkar fulltrúum Vegagerðarinnar fyrir heimsóknina og þær samgöngubætur sem átt hafa sér stað.