Ráðstafanir vegna Covid-19

Fréttir 19.03.2020
Talsverðar breytingar voru gerðar á starfsemi og þjónustu Bláskógabyggðar í upphafi vikunnar til þess að verða við takmörkunum sem settar hafa verið við samkomum og skólahaldi. Af hálfu Bláskógabyggðar er lögð áhersla á að fara að tilmælum Landlæknis og almannavarnadeildar RLS. Hefur því öll starfsemi sveitarfélagsins verið endurskipulögð. Starfsmönnum, nemendum og leikskólabörnum hefur verið skipt upp í hópa, með það að markmiði að hindra það að öll starfsemi viðkomandi stofnunar leggist af komi upp smit sem bregðast þarf við með sóttkví. Með því móti kann að vera unnt að halda starfsemi lengur gangandi en ella. Ljóst er að hefðbundið starf leik- og grunnskóla verður ekki í boði á meðan á þetta ástand varir og mun því reyna á alla sem að því koma, nemendur, foreldra og starfsfólk. Leitast er við að mæta þörfum foreldra sem eru í skilgreindum forgangshópum hvað varðar leik- og grunnskóla. Þeim sem á listanum eru stendur til boða það neyðarúrræði að fá forgang fyrir börn sín á leikskóla og í 1. og 2. bekk grunnskóla. Ástandið getur breyst frá degi til dags og eru áætlanir ekki gerðar til langs tíma í senn. Farið verður yfir skipulag starfseminnar n.k. föstudag og ákveðið hvernig starfsemin verði í næstu viku. Í fréttum hefur komið fram að nokkuð mörgum skólastofnunum hefur verið lokað, tímabundið a.m.k., meðan unnið er að smitrakningu og ef margir nemendur og starfsmenn hafa lent í sóttkví. Foreldrar eru því hvattir til að gera ráð fyrir því í sínum áætlunum að enn frekari raskanir kunni að verða á skólastarfi, fari að bera á smitum á þessu svæði. Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri