Páskakveðja úr Bláskógabyggð

Fréttir 09.04.2020
  Nú í aðdraganda páska eru að verða liðnar þrjár vikur frá því að takmarkanir við samkomuhaldi voru fyrst settar og hefur það haft margvísleg áhrif, bæði á starfsemi sveitarfélagsins, rekstur fyrirtækja og daglegt líf íbúa. Þegar þetta er ritað hefur ekkert smit greinst, enn sem komið er, í Bláskógabyggð. Nokkrir íbúar hafa farið í sóttkví og líklegt er að eitthvað sé um að einstaklingar sem eru í sóttkví dvelji í sumarhúsum á svæðinu. Mikið hefur reynt á starfsfólk leik- og grunnskóla við að halda úti starfsemi og taka jafnframt tillit til stífra reglna og tilmæla um fjarlægð á milli nemenda, sem oft er erfitt að uppfylla, einkum þegar ung börn eiga í hlut. Mikil framþróun hefur orðið í fjarnámi og eflaust mun til framtíðar verða að einhverju marki horft til þess að nýta tæknina enn frekar en venjan er. Starfsfólki eru færðar þakkir fyrir að halda sjó í erfiðum og krefjandi aðstæðum og jafnframt er íbúum þakkað fyrir að sýna því skilning að ekki eru allir hlutir eins og þeir voru. Mikið hefur eflaust mætt á mörgum foreldrum við aðstoð við heimanám og að reyna að sinna vinnu með takmarkaða þjónustu t.d. á leikskólum. Áfram má gera ráð fyrir að starfsemi verði víða skert, en þess er að vænta að fljótlega verði tilkynnt hvernig staðið verði að tilslökunum. Í venjulegu árferði hefðu íbúar og rekstraraðilar í Bláskógabyggð fagnað straumi gesta í sumarhús og á ferðamannastaði um páskana, enda er ferðaþjónustan einn mikilvægasti hlekkurinn í atvinnustarfsemi á svæðinu. Nú er staðan sú að landsmenn eru beðnir að halda sig heima og örfáir erlendir ferðamenn eru á landinu. Eru þetta mikil viðbrigði og afar sérstakt að vera í þeirri stöðu að óska þess að sem fæstir komi. Tilmæli þessi voru ekki sett fram að ástæðulausu, mikið mæðir á heilbrigðiskerfinu hér á Suðurlandi þegar gestkvæmt er, auk þess sem hætta er á að smit sé borið á milli þegar mikil fjöldi fólks kemur saman eða sækir þjónustu. Nokkuð bar á því að of margir söfnuðust saman t.d. við Gullfoss og Geysi, og hefur Umhverfisstofnun nú sett upp merkingar þar sem fólk er minnt á reglur um fjarlægðarmörk. Sveitarstjórn hefur þegar samþykkt tilslökun varðandi innheimtu fasteignagjalda hjá rekstraraðilum sem verða fyrir tekjutapi af völdum Covid-19, en eflaust eru það nánast öll fyrirtæki innan sveitarfélagsins sem verða fyrir áhrifum af þessu ástandi. Nánari útfærsla á greiðslu fasteignagjalda verður kynnt eftir fund sveitarstjórnar sem haldinn verður 16. apríl n.k. Ljóst er að útsvarstekjur sveitarfélagsins munu dragast saman, þar sem atvinnuleysi er þegar talsvert og margir komnir í skert starfshlutfall. Þrátt fyrir það verður leitast við að framfylgja gildandi áætlun um fjárfestingar í sveitarfélaginu, að fjárhæð tæplega 300 milljónir króna, og skoðað sérstaklega hvort hægt sé að flýta einhverjum framkvæmdum sem áætlað var að ráðast í á næstu árum. Þrátt fyrir erfiða stöðu er mikilvægt að tapa ekki bjartsýninni og leita leiða til að komast upp úr þessum öldudal. Megi páskarnir vera ykkur ánægjulegir og endurnærandi.
  1. apríl 2020
Gleðilega páska, Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri