Nýr gistiskáli í Bláskógabyggð
Fréttir
27.04.2009
Nýr gistiskáli sem hjónin Vilborg Guðmundsdóttir og Loftur Jónasson í Myrkholti í Bláskógabyggð hafa byggt var formlega tekið í notkun laugardaginn 18.apríl. Það hefur hlotið nafnið Skálinn. Fjölmenni var við opnun hússins. Séra Sigurður Sigurðarson biskup í Skálholti flutti hugvekju og blessaði húsið.
Byrjað var að byggja húsið í ágúst í fyrra en þau hjón hafa að mestu leyti unnið að byggingarvinnunni sjálf með annarri vinnu. Húsið sem er byggt úr timbri er 285 fm. Í húsinu eru 8 fjögurra manna herbergi, 100 fm. salur, góð eldunaraðstaða og baðherbergi eru rúmgóð. Gistiaðstaðan verður leigð út sem svefnpokapláss og gestir geta eldað sjálfir en tvær eldavélar eru í eldhúsinu. Skálinn verður opin allt árið. Húsið er staðsett skammt frá Gullfossvegi. Þarna er boðið upp á góða aðstöðu, m.a fyrir hestamenn, en reiðleiðir eru góðar og greiðar við hálendisbrúnina.
Nú þegar hefur verið pantað allnokkuð fyrir hestahópa í Skálanum.
Það er vart hægt að lýsa umhverfinu og hófinu betur en Jón Karlsson í Gýgjarhólskoti skrifaði á servíettu við hlið ljósmyndara í opnunarhófinu.
Hótel Myrkholt hlýtt og bjart
hrekur alla skugga.
Fögur sýn og fjallaskart
fæst úr hverjum glugga.
Hérna glymja gamanmál
gleðiraddir hljóma.
Drekkum nú í Skála skál
skörungum til sóma.
www.gljasteinn.is
gljasteinn@gljasteinn.is