María Sól í hópi frægra tónlistamanna

Fréttir 01.12.2006
Ung söngkona úr Biskupstungum, María Sól Ingólfsdóttir, syngur lagið Heilræðavísur eftir Megas á nýútkomnum safndiski hans Pældu í því sem pælandi er í.  María Sól er þar meðal þekktra íslenskra listamanna  eins og KK, Magnús Eiríks, Ragnheiði Gröndals, Heru, Trabants o.fl. Allir flytja eigin  útfærslur af lögum eftir Megas og er þetta mikill heiður fyrir 15 ára gamla stúlku. Lagið er unnið og útsett af Hilmari Erni Agnarssyni, kórstjóra Kammerkórs Biskupstungna og Karli Hallgrímssyni, kennara, og er á geisladisknum Kammerpopp sem gefinn var út síðasta sumar. Lagið fær því framhaldslíf þegar Megas velur það á safndisk sinn núna fyrir jólin. María Sól segir að það sé engin tilviljun að hún syngi lag eftir Megas. ?Allir í fjölskyldunni minni eru Megasaraðdáendur, við dýrkum hann öll hér. Þegar Kammerkórinn vann að geisladisknum, fengum við krakkarnir að velja okkur lag að syngja. Ég valdi þetta lag, Heilræðavísur, vegna þess að mér finnst það mjög fallegt og textinn sterkur.?  María Sól segir að hún hafi alla tíð alist upp við að hlusta á tónlist  foreldra sinna. ?Ég hlusta mikið á gamla tónlist og hef hlustað á allt plötusafnið hans pabba. Þar er t.d. gamalt pönk og Pink Floyd sem mér finnst frábær tónlist.? María Sól hefur, ásamt kórfélögum sínum, fengið tækifæri til að koma fram með Megasi þegar þau fluttu hluta af Passíusálmunum með honum. ?Það var rosalega gaman og við sungum bæði í Skálholtskirkju og Hallgrímskirkju. Það var æðislegt að koma fram í Hallgrímskirkju. Hún er náttúrulega svo stór og hljómburðurinn geggjaður og svo má ekki klappa í Skálholtskirkju en það má í Hallgrímskirkju.? María Sól fór snemma að syngja í skólakór en segist alls ekki vera að íhuga framtíð sem söngkona heldur sé hún aðeins að synga til að hafa gaman af eins lengi og hún getur. Frétt er af vef Gluggans.