Má Bjóða þér aðstoð við vöruþróun?

Fréttir 10.03.2014
Auglýst eftir hugmyndum að nýsköpun í matvælaframleiðslu. Ísland fer með formennsku í norræna ráðherraráðinu á þessu ári og leggur áherslu á nýsköpun í hinu norrænna lífhagkerfi til þess að styrkja svæðisbundinn hagvöxt. Matís mun leiða nýsköpunar- og vöruþróunarverkefni sem unnin verða á þessu sviði næstu þrjú árin. Um er að ræða verkefni sem snúa að nýsköpun í matvælaframleiðslu, aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu og aukinni framleiðslu lífmassa. Fyrsti hluti vöruþróunarverkefnanna er nú að fara í gang og auglýsir Matís því eftir hugmyndum frá áhugasömum aðilum um vöruþróunarverkefni hér heima og í nágrannalöndunum.  Markmiðið í þessum fyrsta hluta er að þróa matvörur eða matvælatengdar vörur, með það að markmiði að frumgerðir þeirra liggi fyrir í júní 2014. Hægt er að sækja um þátttöku í verkefninu á vef Matís  matis.is  til 13. mars. Um er að ræða sérfræðiaðstoð við vöruþróun á matvöru, aðstoð við nauðsynlegar mælingar og/eða uppsetningu gæðakerfis við framleiðslu. Mögulegt er að nýta framleiðsluaðstöðu í matarsmiðjum Matís sem staðsettar eru í Reykjavík, Höfn og á Flúðum. Ekki verður greitt fyrir eigin vinnu umsækjanda, hráefni eða tækjakaup. Gert er ráð fyrir að vöruþróun hefjist í mars og verði lokið um mánaðarmót maí/júní 2014. Nánari upplýsingar veita Gunnþórunn Einarsdóttir og Ingunn Jónsdóttir hjá Matís.   Frétt tekin af vef Matís.