Ljóðasamkeppni UMFL

Fréttir 09.05.2008
Í tilefni 100 ára afmælis UMFL á þessu ári hefur verið ákveðið að efna til samkeppni um ljóð meðal félagsmanna og annarra velunnara. Ljóðin mega vera um hvaða efni sem er innan þess ramma sem félagssvæðið setur, náttúra þess, saga, menning og íbúar, félagið sjálft eða einstök viðfangsefni þess. Ljóðin má yrkja undir hefðbundnum bragarháttum eða vera óbundin þeim. Lengd þeirra er sett í sjálfsvald þátttakendum. Frestur til að skila inn ljóðum er þjóðhátíðardagurinn 17. júní. Ljóðunum skal skilað í tölvupósti á netfangið ingibjorg@ml.is eða í pósti til Ingibjargar Jónsdóttur Kolka, Hrísholti 1, Laugarvatni. Ljóðin skulu ort undir dulnefni en rétt nafn fylgja með. Ingibjörg mun skilja réttu nöfnin frá áður en dómnefnd fær ljóðin í hendur en í dómnefnd sitja Guðmundur Birkir Þorkelsson skólameistari og Laugvetningur sem er formaður, Þórður Helgason ljóðskáld og lektor við Kennaraháskóla Íslands og Elísabet Jökulsdóttir einnig ljóðskáld og ættuð úr Laugardal. Veitt verða vegleg peningaverðlaun fyrir ljóðin, kr. 30.000 fyrir það besta, 20.000 fyrir það næstbesta og 10.000 fyrir það þriðja. Hátíðargestir á afmælismenningarhátíð UMFL 28.-29. júní munu síðan einnig kjósa eitt ljóð sem fær 5.000 kr. aukaverðlaun. Keppnissnið er þannig að á hátíðinni verða lesin þau ljóð sem berast í keppnina og dómnefnd telur hæf til þátttöku, úr þeim verða valin þrjú sem síðan verða lesin í lokadagskránni sunnudaginn 29. júní og dómnefnd tilkynnir síðan um röð þeirra og afhendir verðlaunin. Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Sæmundsson formaður afmælisnefndar, gsaem@khi.is, sími 480-3912 og 861-6017.