Listasafn Árnesinga
Fréttir
25.04.2008
Helena Hans og Hannes Lárusson
- dagskrá í Listasafni Árnesinga laugardag og sunnudag
Laugardaginn 26. apríl kl.17
Helena Hans er ung listakona sem hefur dvalið í Listamannaíbúðinni í Hveragerði þennan mánuð. Laugardaginn nk. 26. apríl kl. 17 býður Listasafn Árnesinga gestum kynnast verkum Helenu í myndum og máli. Á þessari kynningu gefst gott tækifæri til að kynnast námsferli í myndlist innanlands og utan og eru því myndlistarnemar og væntanlegir myndlistarnemar sérstaklega hvattir til að mæta.
Helena Hans segir frá þróun verka sinna á 7 ára námsferli sínum í myndlist, frá fornámi við Myndlistarskóla Reykjavíkur til mastersnáms við Goldsmiths College London, þaðan sem hún útskrifaðist 2007. Þar vann hún til Red Mansion myndlistarverðlaunanna fyrir hönd Goldsmiths og starfaði í Kína í 5 vikur af því tilefni í september 2007.
Sunnudaginn 27. apríl kl. 15
Á sunnudaginn kl. 15 er boðið upp á spjall um sýninguna Er okkar vænst? ? leynilegt stefnumót í landslagi, í þetta sinn með myndlistarmanninum Hannesi Lárussyni, sem stendur að uppbyggingu menningarseturs í Flóanum.
Á sýningunni í Listasafni Árnesinga er verkum tveggja ólíkra myndlistarmanna, þeirra Borghildar Óskarsdóttur og Sigríðar Melrós Ólafsdóttir teflt saman.
Borghildur tengir sig og fjölskyldusögu sína við landslagið í Flóanum og víðar á Suðurlandi. Hún vinnur innsetningu með texta, ljósmyndir, skálar og stjörnumerki.
Sigríður sýnir myndir af föngum og varpar um leið ljósi á framandi heim. Myndirnar eru dúkristur, tréristur og verk unnin með blandaðri tækni. Myndverk þeirra beggja endurspegla samfélagið á forsendum listrænnar endursköpunar.
Listasafn Árnesinga er við Austurmörk 21 í Hveragerði. Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga, frá kl. 12 ? 18. Kaffistofa með barnahorni er í safninu og nýbakaðar vöfflur um helgar. Í sófahorni eru ýmis rit um myndlist.
Aðgangur er ókeypis