Kaffihús opnar á Kili
Fréttir
19.06.2012
Framkvæmdum við nýtt kaffihús í Árbúðum við Kjalveg er að ljúka.
Nýja kaffihúsið hefur hlotið nafnið Hrefnubúðarkaffi.
Í tilefni opnunar verður gestum og gangandi boðið í kaffi og vöfflur
frá kl. 14:00-18:00 laugardaginn 23. júní í Hrefnubúðarkaffi.
Árbúðir er fjallaskáli við Kjalveg. Húsið rúmar um 30 manns í gistingu og þar er góð aðstaða fyrir menn og hesta. Eldunaraðstaða, vatnssalerni og sturta, hestagerði og hesthús. Hrefna sú sem kaffihúsið er kennt við var tröllskessa, eiginkona Bergþórs risa í Bláfelli. En sagan segir að henni hafi líkað illa að búa í Bláfelli eftir að kristni var tekin upp í landinu svo hún flutti og settist að í Hrefnubúðum. Þau hjónin hittust svo gjarnan við veiðar í Hvítárvatni. Má segja að þau hafi verið í fjarbúð, jafnvel þau fyrstu á landinu.
Þau Vilborg Guðmundsdóttir og Loftur Jónasson eru rekstraraðilar í Árbúðum og annast fleiri skála á fjöllum, Gíslaskála í Svartárbotnum og Fremstaver. Á þessu ári tóku þau einnig við rekstri í Hólaskógi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Af því tilefni bjóða þau upp á opið hús og vöfflukaffi í Hólaskógi 7. júlí kl. 14:00 og 17:00
Allir velkomnir
www.gljasteinn.is