Júníviðburður Upplits þriðjudagskvöldið 26. júní

Fréttir 18.06.2012
Gengið í slóð Fjalla-Eyvindar Upplitsviðburður júnímánaðar, þriðjudagskvöldið 26. júní kl. 20, verður ganga á Skipholtsfjall í Hrunamannahreppi að byrgi sem talið er að útilegumaðurinn Fjalla-Eyvindur hafi notað. Leiðsögumaður verður Halldór Guðnason á Efra-Seli og að göngu lokinni verður komið við hjá honum á Kaffi Seli þar sem göngugarpar geta keypt sér hressingu ef hungur sverfur að ? og fræðst meira um Fjalla-Eyvind, skoðað nákvæma eftirlíkingu af byrginu og handverksstofuna Skógarsel, þar sem hópur handverksfólks úr Hreppunum hefur að undanförnu unnið að því að skapa Fjalla-Eyvind og Höllu úr tré. Fjalla-Eyvindur fæddist í Hlíð í Hrunamannahreppi árið 1714. Foreldrar hans voru  Jón Jónsson bóndi í Hlíð og Ragnheiður Eyvindsdóttir húsfreyja. Jón Jónsson,  bróðir Fjalla-Eyvindar, var bóndi í Skipholti og er talið að hann hafi notað byrgið í Skipholtsfjalli til að koma mat til útilegumannsins. Byrgið fannst fyrir tilviljun um miðja síðustu öld þegar Dagbjartur Jónsson, bóndi í Hvítárdal, var við smalamennsku. Byrgið fellur svo vel inn í umhverfið að illmögulegt er  fyrir ókunnuga að finna það. Gangan er samstarfsverkefni Upplits og menningar- og ferðanefndar Hrunamannahrepps og hluti af gönguröð nefndarinnar á þriðjudagskvöldum í sumar. Göngurnar hafa fest sig í sessi og eru nú á dagskrá ellefta sumarið í röð. Lagt verður upp í gönguna frá afleggjaranum að eyðibýlinu Jötu. Fyrir þá sem ekki þekkja til er rétt að láta leiðarlýsingu fylgja: Frá Flúðum er ekið upp hreppinn, framhjá bæjunum Bryðjuholti, Kópsvatni, Kotlaugum, Skipholti, Hvítárdal, Haukholtum og beygt inn afleggjarann að bænum Fossi. Þar er afleggjari að Jötu. Frá Flúðum að Fossi eru u.þ.b. 16 km. Allir fyrrgreindir bæir frá Bryðjuholti að Fossi eru á vinstri hönd en beygt er til hægri að Jötu og Fossi.