Hugmyndadagar Suðurlands

Fréttir 24.03.2025
Ertu með brennandi áhuga á hringrásarhagkerfinu, sjálfbærni og nýsköpun? Þá eru Hugmyndadagar Suðurlands vettvangurinn fyrir þig!
Viðburðurinn, sem fer fram dagana 1. til 7. apríl, er einstakt tækifæri fyrir skapandi einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög til að vinna saman að nýjum lausnum fyrir samfélagið á Suðurlandi. Byggðaþróunarfulltrúar á Suðurland og SASS standa fyrir viðburðinum en hann er fjármagnður með styrk sem fékst úr Lóu nýsköpunarsjóði.
Þeir sem taka þátt í hugmyndadögum munu vinna saman í teymum og fá tækifæri til að takast á við raunverulegar áskoranir sem fyrirtæki og sveitarfélög á Suðurlandi standa frammi fyrir. Að lokinni hugmyndavinnunni kynna teymin verkefni sín fyrir dómnefnd, sem velur bestu lausnirnar og er til mikils að vinna þar sem verðlaunapotturinn er 400.000 krónur.
Dagskrá viðburðarins er svohljóðandi
1. apríl (13:00-15:00): Rafræn vinnustofa í hönnunarhugsun og nýsköpun, leidd af Svövu Björk Ólafsdóttur, sérfræðingi í nýsköpun, og Guðrúnu Gyðu Franklin, arkitekt og sérfræðingi í hönnunarhugsun.​
3. apríl (10:00-16:00): Hugarflug um nýjar hringrásarlausnir á hverju svæði með þátttöku fyrirtækja og sveitarfélaga. Teymin hittast á sínu nærsvæði þar sem fulltrúar RATA og byggðaþróunarfulltrúar leiða hugmyndavinnu með hönnunartóli hringrásarhagkerfisins.​
7. apríl (13:00-15:00): Rafrænn lokaviðburður þar sem teymin kynna verkefni sín fyrir dómnefnd.
Viðburðurinn er opinn öllum sem hafa áhuga algjörlega óháð bakgrunni eða reynslu. Þetta er frábært tækifæri til að vinna með sérfræðingum, tengjast nýjum samstarfsaðilum og leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar á Suðurlandi.
Skráning er hafin, og við hvetjum alla sem hafa áhuga á nýsköpun og sjálfbærum lausnum til að taka þátt. Frekari upplýsingar og skráning má finna á vef SASS.