Hjólhýsasvæðinu á Laugarvatni lokað innan 2ja ára

Fréttir 18.09.2020
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi sínum í dag að rekstri hjólhýsasvæðis við Laugarvatn verði hætt. Ákvörðunin er tekin vegna þess að öryggi fólks á svæðinu er verulega ábótavant, komi þar upp eldur. Í bréfi lögreglustjórans á Suðurlandi og slökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu frá því í maí kemur fram að ástandið á svæðinu með tilliti til brunavarna og öryggis fólks sé með öllu óviðunandi. Í bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá því í ágúst kemur fram að það sé á ábyrgð eiganda eða rekstraraðila að tryggja fullnægjandi aðgerðir gegn eldsvoða. Sveitarstjórn telur sér ekki fært að leggja fjármagn í þá uppbyggingu svæðisins, sem til þyrfti að koma til að ástandið yrði viðunandi. Ljóst er að sveitarfélagið yrði að leggja í verulegan kostnað til að koma öryggismálum á svæðinu í viðunandi horf, svo sem með öflugri vatnslögn inn á svæðið fyrir slökkvivatn og uppsetningu brunahana og gerð flóttaleiða. Deiliskipuleggja þyrfti svæðið og gera hluta leigutaka að víkja af svæðinu, til að virða fjarlægðarmörk milli eininga, og fjarlægja talsvert af byggingum. Þá liggur fyrir beiðni um frekari uppbyggingu hreinlætisaðstöðu, auk þess sem þyrfti að bæta úr fráveitumálum. Fyrirkomulag rekstrar hefur verið þannig að svæðið er á landi sveitarfélagsins og á það götur, lagnir og hreinlætisaðstöðu á svæðinu. Samningar hafa verið gerðir á milli sveitarfélagsins og fyrirtækis sem annast rekstur svæðisins og á milli rekstraraðila og einstaka leigutaka. Samningar við leigutaka eru gerðir til 2ja ára í senn og er misjafnt hversu langt er þar til þeir renna út. Samþykkt sveitarstjórnar er á þá leið að gildandi samningar við leigutaka verði ekki endurnýjaðir þegar þeir renna út og verða því engir samningar i gildi að tveimur árum liðnum. Rekstur hjólhýsasvæðis við Laugarvatn á sér hátt í 50 ára sögu og hafa margar fjölskyldur notið dvalar þar. Regluverk hvað varðar skipulag slíkra svæða og brunavarnir hefur breyst á þeim tíma og eru nú gerðar meiri kröfur til slíkra þátta. Þar sem ekki er unnt að tryggja viðunandi brunavarnir og öryggi fólks nema ráðast í umtalsverðan kostnað verður starfseminni hætt, enda er ekki hægt að réttlæta að sveitarfélagið kosti slíka uppbyggingu.