Heilbrigð sál í hraustum líkama

Fréttir 27.04.2009
Samræðuráðstefna á Laugarvatni 3. maí 2009 Sunnudaginn 3. maí verður haldin samræðuráðstefna í Íþróttafræðasetri HÍ á Laugarvatni. Markmið ráðstefnunnar er að hefja markvissa umræðu um gildi íþrótta fyrir menninguna og samfélagið og tengja saman áhugafólk og fræðimenn á sviði íþróttafræða og mennta-, hug- og félagsvísinda. Komið verður saman á Laugarvatni í húsnæði íþrótta- og heilsubrautar HÍ kl. 13:00 eftir hádegi og hefst þá ráðstefnan undir stjórn Arnar Ólafssonar lektors. Byrjað verður á þremur inngangserindum. Guðmundur Sæmundsson aðjunkt við HÍ flytur fyrirlesturinn Siðaboðskapur íþróttabókmennta. Ellert B. Schram fyrrverandi forseti ÍSÍ nefnir erindi sitt Lífið og leikurinn. Loks mun Hafþór B. Guðmundsson lektor við HÍ flytja erindið Rétt og rangt í íþróttum. Að loknum inngangsfyrirlestrum verður gott hlé fyrir kaffisopa og spjall en síðan munu ýmsir nemendur og kennarar skólans kynna veggspjöld um viðfangsefni sín. Einnig verður starfsemi Íþróttafræðaseturs Háskóla Íslands á Laugarvatni kynnt lítillega. Eftir veggspjaldakynninguna eða um kl. 16:00 skipta ráðstefnugestir sér í tvær samræðumálstofur þar sem fram fara frjálslegar umræður um viðfangsefni tengd inngangserindunum. Annar hópurinn tekur mið af inngangserindi Guðmundar og fjallar um íþróttir í bókmenntum, kvikmyndum og öðrum listum, íþróttasiðferði og aðra knýjandi orðræðu. Meðal málshefjenda þar verða Soffía Björg Sveinsdóttir MS-nemi, prófessor Júlían Meldon D´Arcy og Björn Ægir Norðfjörð lektor. Hin samræðumálstofan tekur mið af framsögum þeirra Ellerts og Hafþórs og fjallar um þau verðmæti og gildi sem íþróttum tengjast fyrir einstaklinga og samfélagið og þátt fjölmiðla í útbreiðslu þeirra. Meðal annars verður fjallað um mikilvægi íþrótta fyrir þjóðina og fytrir æsku landsins. Meðal málshefjenda verða  Ann-Helen Odberg lektor, Árni Guðmundsson aðjunkt, Samúel Örn Erlingsson íþróttafræðingur og Bjarni Jónsson frjálsíþróttamaður og félagsmálamaður úr ungmennafélagshreyfingunni. Að loknum samræðum í málstofunum tveimur koma ráðstefnugestir saman á ný um kl. 17:30 og hlýða á erindi Vilhjálms Einarssonar frjálsíþróttamanns um uppeldisgildi íþrótta og annað sem rætt hefur verið á ráðstefnunni. Að því loknu eða um kl. 18 verður ráðstefnunni slitið. Inn á milli dagskráratriða mun Þórður Helgason ljóðskáld og lektor við HÍ flytja ráðstefnugestum íþróttaljóð eftir ýmsa höfunda. Undirbúningur ráðstefnunnar er í höndum Guðmundar Sæmundssonar aðjunkts og doktorsnema og veitir hann allar frekari upplýsingar, gsaem@hi.is og 525-5312. Þess má geta að daginn áður verður haldin ráðstefna í sal Menntaskólans að Laugarvatni á vegum Félags um átjándu aldar fræði og fjallar hún um kennarann og fræðimanninn Ólaf Briem.