Gjafir til Íþróttamiðstöðvarinnar í Reykholti

Fréttir 28.06.2011
Á 17. júní hátíðarhöldum í Reykholti  afhenti Kvenfélag Biskupstungna Íþróttamiðstöðinni í Reykholti þrjú líkamsræktartæki að gjöf. Andvirði gjafarinnar var rúmlega 1 milljón króna. Það hafði lengi verið draumur kvenfélagsins að gefa slík tæki og koma upp aðstöðu í Íþróttamiðstöðinni. Kvenfélagskonur söfnuðu fyrir þessum tækjum með því að gefa út dagatal árið 2010 með meðlimum félagsins þar sem þær sátu fyrir og vakti dagatalið talsverða athygli. Það var Margrét Baldursdóttir formaður Kvenfélags Biskupstungna sem afhenti Drífu Kristjánsdóttur oddvita Bláskógabyggðar tækin formlega. Við sama tækifæri afhenti Ungmennafélag Biskupstungna Íþróttamiðstöðinni róðravél að gjöf en andvirði gjafarinnar er um 220.000,- kr. Þá barst einnig gjöf á einu tæki frá Þuríði Sigurðardóttur og Guðna Lýðssyni til Íþróttamiðstöðvarinnar. Búast má við að kvenfélagskonur og aðrir íbúar Bláskógabyggðar eigi eftir að taka vel á því í nýju líkamsræktinni í Reykholti þökk sé dagatalinu góða þeirra kvenfélagskvenna í Tungunum. 16190_IMG_0228