Friðlýsing Geysissvæðisins

Fréttir 18.06.2020
Á þjóðhátíðardaginn, 17. júní,  undirritaði umhverfisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, friðlýsingu Geysis og svæðisins í kring. Með friðlýsingunni er stuðlað að því að svæðið nýtist til útivistar og ferðaþjónustu til framtíðar og sé í stakk búið til að taka á móti þeim fjölda gesta sem sækja svæðið heim á ári hverju. Þá er einnig stuðlað að endurheimt náttúrufars á svæðinu sem raskað hefur verið og það fært til fyrra horfs eins og kostur gefst á. Undirritunin fór fram á hverasvæðinu í Haukadal að viðstöddum fulltrúum Bláskógabyggðar, fulltrúum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og fleiri gestum. Karlakór Hreppamanna söng við athöfnina.