Fréttir frá Skálholtskórnum

Fréttir 21.11.2007
Fréttir frá Skálholtskórnum. Árið hefur verið annasamt hjá Skálholtskórnum.  Eftir páska skrifaði kórinn undir samning við Stjórn Skálholts um messusöng í Skálholtsdómkirkju þar sem fram kemur að kórinn er dómkór kirkjunnar.  Einnig var endurnýjaður samningur kórsins við við sóknakirkjur Skálholtsprestakalls. Eftir að fermingamessum lauk í vor tóku við æfingar fyrir Skálholtshátíð og áframhaldandi æfingar fyrir utanlandsferð kórsins til Ítalíu og páfagarðs. Fallegir tónleikar á Skálholtshátíð. Skálholtskórinn hélt tónleika á Skálholtshátíð, laugardaginn 21. júlí 2007.  Voru þeir á vegum Sumartónleika í Skálholtskirkju í þetta sinn og báru titilinn ?Söngarfurinn?.  þar var lögð áhersla á þjóðlega kirkjutónlist og sálma, sem margir hverjir eru á nýjum geisladiski kórsins, sem út kom í haust á vegum Skálholtsstaðar. Þóttu tónleikarnir takast vel og hlutu góða dóma. Messunni á Skálholtshátíð, sunnudaginn 22. júlí, var útvarpað að venju, og var í þetta sinn sungin katólsk messa,  Missa Angelis.  Komu að henni, auk Skálholtskórsins, félagar úr kór Landakotskirkju. Kórferð til Ítalíu Í lok júlí hélt Skálholtskórinn síðan í hálfs mánaðar kórferð til Ítalíu, þar sem hápunktur ferðarinnar var móttaka hjá Benedikti páfa 16. í móttökusal Vatikansins, miðvikud. 1. ágúst. Var sú stund kórfélögum mjög eftirminnileg. Kórinn hélt tónleika í Róm og í Sorrento, þar sem flutt voru verk af efnisskrá sumarsins, auk þess sem hann söng við katólskar messur í Pompei og Sorrento.  Kom sér þá vel að hafa æft englamessuna fyrir Skálholtshátíð.  Að lokum söng kórinn nokkur lög fyrir presta frá öllum heimshornum, á ráðstefnu presta í Palermo á Sikiley. Náttúrufegurð er víða mikil á Ítalíu og þar sem leiðin lá eftir endilangri Ítalíu, frá Mílanó til Palermo á Sikiley, bar margt fyrir augu.  En flestum kórfélögum er þó ferðin til Kaprí eftirminnilegust. Á tónleikunum í Róm söng með okkur Halla Margrét Árnadóttir söngkona, sem búsett er á Ítalíu. Skömmu eftir að við komum heim úr ferðinni, þann 22. ágúst, sungum við með henni og Hrólfi Sæmundssyni baritón, á styrktartónleikum í Salnum í Kópavogi, á vegum Bergmáls, líknarsamtaka til aðstoðar langveiku fólki.  Var skemmtilegt að taka þátt í þeim tónleikum og geta orðið að liði í leiðinni. Nýr geisladiskur með Skálholtskórnum. Meðan á undirbúningi tónleika og ferðar stóð, var haldið áfram að vinna að útgáfu geisladisks kórsins, sem tekinn var upp á síðasta ári í Skálholtsdómkirkju og ber titilinn:  ?Skálholtskórinn, Mín sál, þinn söngur hljómi?. Þar eru fluttir sálmar, sem mega teljast einkennandi fyrir Skálholtsdómkirkju og hafa m.a. verið fluttir á Skálholtshátíðum og við aðrar athafnir í kirkjunni á liðnum árum.  Má þar nefna sálma eftir, dr Róbert Abraham Ottósson, Þorkel Sigurbjörnsson og Jakob Hallgrímsson, eða í útsetningu þeirra, Taize-söngvar o.fl.  Diskurinn var tekinn upp í hinum frábæra hljómburði Skálholtskirkju og eru sálmarnir fluttir með eða án orgelundirleiks. Einnig bregður fyir trompett og saxafón í einstaka sálmi.  Kyrrð og friður einkennir þennan geisladisk. Útgefandi er Skálholtsstaður. Að loknum réttum  í september - og réttaballi, sem Skálholtskórinn sá um eins og undanfarin ár, - var farið að huga að dagskrá vetrarins: Vetrardagsskráin til jóla ? útgáfutónleikar og aðventutónleikar. Laugardaginn 17. nóvember kl 17.00 mun Skálholtskórinn ásamt Barna- og Kammerkór Biskupstungna vera með útgáfutónleika í Skálholtskirkju, þar sem m.a. verður flutt tónlist af geisladiskinum ?Mín sál, þinn söngur hljómi?, og kantatan ?Leyfið börnunum að koma til mín? eftir Jón Ásgeirsson.  Einnig verður flutt tónlist til heiðurs Jónasi Hallgrímssyni á 200 ára árstíð hans. Laugardaginn 8. desember kl 15 og 18 verða síðan hinir árlegu aðventutónleikar Skálholtskórsins í Skálholtsdómkirkju. Einsöngvarar með Skálholtskórnum verða Diddú, Sigrún Hjálmtýsdóttir, sem sungið hefur á aðventutónleikum kórsins mörg undanfarin ár, og ungur tenór ættaður úr Tungunum, Egill Árni Pálsson. Einnig syngur Barna- og Kammerkór Biskupstungna og öllu stjórnar að venju Hilmar Örn Agnarsson, dómorganisti og kantor í Skálholtsdómkirkju. Jólalag Skálholts 2007 er samið af Hildigunni Rúnarsdóttur tónskáldi, en kórinn hefur frumflutt a.m.k. eitt nýtt jólalag ár hvert undanfarin ár.