Fræðsluefni í Skálholti fyrir grunnskólabörn

Fréttir 08.06.2018
Þökk sé verkefnisstyrk frá Samtök sunnlenskra sveitarfélaga hefur Skálholt og 11 önnur söfn og sýningar á Suðurlandi hannað fræðsluefni fyrir grunnskólanema. Framlag Skálholts er hefti sem inniheldur ratleik, sem við nefnum: "Ferðalag í tíma og rúmi ? Aftur í tímann og og ofaní jörð í Skálholti". Við viljum sérstaklega bjóða grunnskólabörn í 5-7 bekk velkomin í Skálholt til að skoða minjar um sögu Íslands á miðöldum. Saga Skálholts nær yfir stóran hluta af Íslandssögunni. Staðurinn var í 750 ár einskonar höfuðstaður Íslendinga utan alþingistímans. Hér var stjórnsýsla, skólahald og fræðasetur löngum fyrir 3/4 hluta landsins. Hugmyndin er að skólabörn fái tækifæri til að "stíga niður í jörðina og aftur í tímann" í Skálholti, með því að fara niður í safnið í kjallaranum og út um göngin fornu og ferðast þannig aftur í tímann og kynnast hluta af þessari merku sögu. Fræðsluefnið er þverfaglegt og hefur skírskotanir í ólíkar námsgreinar; Íslandssögu, trúarbragðafræði, list-og verkgreinar, upplýsinga-og tæknimennt og náttúrugreinar með "fornleifauppgreftri" í Skálholti og hvernig menn lesa í aldur fornminja út frá öskulögum í jörð. Þau kynnast Páli biskup Jónssyni sem var biskup í Skálholti 1195-1211. Hann er eini nafnkunni Íslenndingur miðalda hvers jarðneskar leifar hafa fundist en steinkista hans fannst í Skálholti 21. ágúst 1954. Á heimasíðu Skálholts má nú finna hljóðskrá þar sem er bein útvarpssending frá fundinum. Þá verður fjallað um listmun, útskorinn biskupstaf úr rostungstönn sem var að öllum líkindum gerður af fyrstu nafngreindu listakonu Íslandssögunnar, Margréti hinni högu Jónsdóttir, sem bjó í Skálholti á þessum tíma. Einnig hefur verið búið til þrívíddarforritið Unity 3D, þar sem hægt er að fara úr stað í Skálholti, skoða og fræðast um göngin og kistu Páls og skoða það 360°. Það verður hægt að ferðast um söguna á heimasíðunni: skalholt.is en einnig og ekki síður með því að koma í heimsókn til okkar og vinna þetta verkefni sem er afurð styrksins. Viljum við þakka SASS kærlega fyrir stuðninginn.