Fræðsla og forvarnir

Fréttir 18.01.2022
Bláskógabyggð er að setja af stað vinnu við að efla öryggi og velferð barna og hefur nokkur undirbúningsvinna átt sér stað. Á fundi sveitarstjórnar mánudaginn 17. janúar var samþykkt að ráðast í sérstakt verkefni um forvarnir og fræðslu og m.a. horft til stefnu ríkisstjórnarinnar um aukna farsæld barna. Þannig verður t.d. horft til aðgerðaáætlunar sem samþykkt var af Alþingi og tekur til forvarna meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundu ofbeldi og áreitni, en auk þess verður horft til ofbeldis almennt, af hvaða tagi sem það er. Vinnan mun taka til allra stofnana sveitarfélagsins og félagasamtaka, sem hafa með þjónustu við börn og ungmenni að gera, auk foreldrastarfs og fræðslu fyrir foreldra barna. Meðal annars verður verkefnið unnið með þeim félagasamtökum sem hafa samninga við sveitarfélagið um barna- og ungmennastarf, en það eru Ungmennafélag Biskupstungna, Ungmennafélag Laugdæla, nýsameinað hestamannafélag, Björgunarsveit Biskupstungna og Björgunarsveitin Ingunn. Nú þegar hafa UMFB og Bláskógabyggð leitað leiðsagnar hjá samskiptaráðgjafa ÍSÍ (www.samskiptaradgjafi.is) varðandi verkefnið. Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings mun einnig koma að vinnunni. Meðal annars hefur utanumhald um stofnun forvarnateyma grunnskóla á starfssvæði Skóla- og velferðarþjónustunnar verið í höndum starfsmanna hennar í samstarfi við skólastjórnendur.  Íbúar geta leitað ráðgjafar varðandi öryggi og velferð barna hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings, í Laugarási hjá Eddu Sigurjónsdóttur, félagsráðgjafa, síminn er 480 1180 (www.arnesthing.is). Fyrsti þáttur í almennri fræðslu til foreldra leik- og grunnskólabarna í Bláskógabyggð verður í formi fyrirlestrar sem Barnaheill munu bjóða upp á í fjarfundi þriðjudaginn 18. janúar n.k. kl. 20:15 undir yfirskriftinni ?5 skref til verndar börnum?. Auglýsing hefur verið send foreldrum leik- og grunnskólabarna í gegnum Mentor, ásamt slóð á fundinn, og eru þeir hvattir til að taka þátt. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vill að umhverfi barna og ungmenna í sveitarfélaginu verði tryggt og er þetta verkefni einn liður í því.