Farfuglaheimilum fjölgar

Fréttir 30.05.2016
Farfuglaheimilin á Íslandi eru nú orðið 35 talsins en þau eru staðsett hringinn í kringum landi. Tvö ný heimili hafa bæst við nú í vor; Farfuglaheimilið á Eyrarbakka og Farfuglaheimilið á Reykhólum. Einnig hefur verið unnið að gagngerum breytingum á Farfuglaheimilinu á Laugarvatni. Farfuglaheimilið á Eyrarbakka var tekið inn í heimilisnet Farfugla í byrjun maí sl. en Farfuglar eru hluti af Hostelling International sem starfar í 80 löndum með 4000 Farfuglaheimili á sínum snærum. Hjónin Jóhann Jónsson og Jessi Kingan opnuðu þar gistiheimili í maí 2015 í gamla frystihúsinu á staðnum sem gekk undir nafninu Gónhóll en ákváðu að ganga til liðs við Farfugla í lok apríl síðastliðinn. Á Eyrarbakka er boðið á herbergi með baði og litlar íbúðir ásamt gistingu í 4-10 manna herbergjum. Eyrarbakki hefur fest sig í sessi sem áhugaverður áfangastaður þar sem hægt er skynja fortíðina í tengslum við fjöldamörg gömul hús sem hafa verið gerð upp. Farfuglaheimilið á Reykhólum er nýlega tekið til starfa. Þar var lengi rekið Farfuglaheimili að Álftalandi en starfsemin hafði legið niðri í fjögur ár. Núverandi rekstraraðilar eru hjónin Sveinn Borgar Jóhannesson og Guðbjörg Tómasdóttir og hafa þau tekið gistiheimilið rækilega í gegn og bjóða upp á gistingu fyrir 32  gesti í  11 herbergjum.  Mikill uppgangur er í ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum enda náttúrufar fjölbreytt og mikil eftirsókn í þaraböð og aðra náttúruupplifun s.s. fuglaskoðun og gönguferðir. Farfuglaheimilið á Laugarvatni hefur verið í rekstri og hluti af heimilisneti Farfugla síðan 1997 en hefur nú gengið í gegnum miklar endurbætur. Bætt hefur verið við 15 herbergjum með baði, aðstaða fyrir gesti hefur verið bætt sem og aðgengi fyrir fatlaða. Hjónin Jóna Bryndís Gestsdóttir og Gunnar Vilmundarson sem reka staðinn segja að eftirspurn eftir tveggja manna herbergjum með baði hafi aukist mikið og æskilegt sé að geta boðið upp á blandaða gistimöguleika og komið þannig til móts við þarfir sem flestra. Þau hjónin stefna á að opna Póstbarinn í júní í gamla pósthúsinu á Laugarvatni og segja að mikla eftirspurn eftir notalegum veitingastað sem er bæði bar og matsölustaður og sýnir t.d. frá leikjum úrvalsdeildarinnar í fótbolta á stórum flatskjá fyrir gesti á Laugarvatni og svæðinu í kring. Nánari upplýsingar veita: Dóra Magnúsdóttir, markaðsstjóri Farfugla, dora@hostel.is s. 8539953 Einnig er að finna nánari upplýsingar á vef Farfugla www.hostel.is