Björn í Úthlíð hlaut landbúnaðarverðlaunin

Fréttir 08.03.2007
360_landbunadarverdlaun_07Landbúnaðarverðlaun voru veitt við setningu Búnaðarþings um síðustu helgi og var mikið um dýrðir. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra veitti fjórum bændafjölskyldum sérstaka viðurkenningu fyrir vel unnin störf í landbúnaði. Að þessu sinni var Björn bóndi einn þeirra sem heiðraðir voru. Önnur býli sem voru heiðruð var Syðra Skörðugil í Skagafirið, Stakkhamar á Snæfellsnesi, Ásaskóli Gnúpverjahreppi og Úthlíð. Árið 1961 hófu þau hjónin Björn Sigurðsson og Ágústa Margrét Ólafsdóttir frá Hjálmholti í Flóa, félagsbúskap í Úthlíð með foreldrum Björns þeim Gísla og Sigríði. Tíu árum seinna 1971 tók Jón Sigurðusson við hlut foreldra sinna og bjó hann ásamt Birni félagsbúi í Úthlíð til 1971 er hann varð að hætta búskap vegna afleiðinga slyss. Björn og Ágústa bjuggu áfram og höfðu að jafnaði mikinn bústofn um 500 fjár og 20 ? 30 kýr. Við þær miklu breytingar sem urðu í hefðbundum landbúnaði um 1980 drógu þau verulega úr þessum búskap og breyttu til. Þegar ferðaþjónusta bænda var stofnuð var Björn í stjórn hennar fyrstu þrjú árin og síðan formaður félagsins í 3 ár og leiðandi í því starfi. Árið 1978 hófu þau hjónin ferðaþjónustu í Úthlíð sem fyrir löngu er orðin landsþekkt. Fyrir þeim vakti að þjóna áfram en í breyttri mynd, þéttbýlisbúum eins og landbúnaðurinn hefur gert og skapa jafnframt atvinnugrundvöll fyrir fólk í dreifbýli. Landbúnaðurinn hefur þjónað þéttbýlinu í tugi ára og þá fyrst og fremst hvað varðar matvælaframleiðslu. Í Úthlíð getur fólk fengið leigt land undir orlofshús og eru nú nær 200 slík á jörðinni og íbúar þeirra telja um 1000 þegar hvað fjölmennast er. Björn þjónustar fólkið og annast vegi, vatn, rafmagn og annað slíkt sem fólkið þar. Björn gerði sér strax grein fyrir að heita vatnið væri forsenda uppbyggingar og réðst hann í ásamt fleiri bændum sveitarinnar að láta bora eftir heitu vatni á Efri-Reykjum. Ekki var gefist upp þótt erfiðleikar steðjuðu að og það var ekki fyrr en eftir að borðaðar höfðu verið 23 holur að árangur náðist. Eru nú um 500 hús tengd veitunni. Ekki var nóg að byggja sumarhúsin. Eittvað varð fólkið að gera og nú var ráðist í byggingu sundlaugar og heitra potta auk veitingastaðar í Úthlíð. Til að styrkja þetta samfélag var einnig byggður golfvöllur og eru nú félagar í klúbbnum um 140 og mynda náin og sterk kynni. Enn var ætlun þeirra hjóna að halda áfram að styrkja samfélagið og höfðu þau rætt um byggingu kirkju á þessum forna kirkjustað. Þessi hugmynd átti eftir að breytast. Ágústa veiktist af alvarlegum sjúkdómi og lést 20. september 2004. En Björn vissi að lífið héldi áfram og ákvað að reisa kirkju í minningu konu sinnar og tveimur árum síðar þann 9. júlí 2006 var kirkjan fullbúin og vígð. Björn er trúaður maður en hann er einnig gleðimaður sem veit að hvert samfélag manna þarf félagsaðstöðu. Kirkjunni er ætlað slíkt hlutverk og þar fara nú fram giftingar, skírnir og fermingar, ekki síst tengdar því fólki sem Björn hefur tekið að sér að þjóna í Úthlíð. Fyrir áræðni, dugnað og trú á íslenskar sveitir er Birni í Úthlíð veitt landbúnaðarverðlaunin 2007. Af heimasíðu www.uthlid.is