Bjarni Bjarnason íþróttamaður Bláskógabyggðar 2017

Fréttir 22.01.2018
Æskulýðsnefnd Bláskógabyggðar bauð síðastliðinn fimmtudag til hófs til heiðurs íþróttamönnum sveitarfélagsins. Hófið var að þessu sinni haldið í íþróttahúsinu á Laugarvatni og þótti það vel við hæfi þar sem Bláskógabyggð tók við rekstri þess á árinu 2017. Þar fengu tvær hlaupakonur úr Laugdælum verðlaun fyrir góðan árangur á árinu 2017 þær Agnes Erlingsdóttir og Lára Björk Pétursdóttir en báðar urðu þær bikarmeistarar í 1500m hlaupi, Agnes í fullorðinsflokki og Lára Björk í Bikarkeppni 15 ára og yngri. Að þessu sinni ákvað Æskulýðsnefnd að veita sameiginlegu liði skóla Bláskógaskóla í Reykholti og á Laugarvatni sérstaka viðurkenningu fyrir góðan árangur í Skólahreysti ? Suðurlandsriðli á árinu 2017 en liðið varð i 3. sæti í keppninni. Þau sem skipuðu liðið eru Anthony Karl Flores, Sölvi Freyr Jónasson, Lára Björk Pétursdóttir og Jóna Kolbrún Helgadóttir en þess má geta að þau eru öll miklir íþróttamenn, með bakgrunn úr hinum ýmsu íþróttagreinum. Tveir knapar voru tilnefnir til íþróttamanns ársins, Bjarni Bjarnason, ættaður frá Þóroddsstöðum, en hann er félagi í Hestamannafélaginu Trausta og Rósa Kristín Jóhannesdóttir frá Brekku sem keppir fyrir Hestamannafélagið Loga. Bjarni hlaut tiltilinn í ár en þetta er í þriðja sinn sem hann er valinn íþróttamaður Bláskógabyggðar. Árangur Bjarna á árinu 2017 náði ekki þeim hæðum sem á fyrri árum enda kannski ekki hægt að fara fram á heimsmet á ári hverju. Bjarni átti samt farsælan feril í skeiðkeppni á árinu varð m.a. í 3. sæti í 100m skeiði á Íslandsmótinu og í 1. sæti í 250 m skeiði á Suðurlandsmótinu.