Bjarni Bjarnason Íþróttamaður Bláskógabyggðar 2014

Fréttir 14.01.2015
Bjarni Bjarnason, Hestamannafélaginu Trausta, var útnefndur Íþróttamaður Bláskógabyggðar í hófi sem Æskulýðsnefnd Bláskógabyggðar efndi til sl. sunnudag. Bjarni er fjölhæfur íþróttamaður og hefur stundað ýmsar íþróttagreinar frá unga aldri, hann er liðtækur knattspyrnumaður og var auk þess lykilmaður í körfuknattleiksliði Laugdæla um árabil sem og þjálfari liðsins. Á landsvísu er hann sennilega best þekktur sem knapi góður og segja má að árið 2014 hafi verið hans ár. Hann tók þátt í meistaradeild í hestaíþróttum og góð frammistaða hans sjálfs og liðsins, Auðholtshjáleigu, skilaði þeim 2. sæti í deildinni. Í ágúst varð hann svo tvöfaldur Íslandsmeistari í 100 m skeiði og einnig í 250 m skeiði, í bæði skiptin á Heru frá Þóroddsstöðum. Hápunktur ársins var þó án efa þegar Bjarni og Hera frá Þóroddsstöðum sigruðu í 250 m skeiði á Landsmóti hestamanna á Hellu í júlí og settu þar Íslands- og heimsmet. Að lokum má geta þess að Bjarni var svo einn af fimm sem tilnefndir voru sem skeiðknapi ársins af Landssambandi hestamanna. Þrír aðrir íþróttamenn voru einnig tilnefndir, þeir Smári Þorsteinsson frá UMF. Bisk., Sólon Morthens frá Hestamannafélaginu Loga og Sveinbjörn Jóhannesson frá UMF. Laugdæla.  Auk þessara voru 15 aðrir íþróttamenn heiðraðir fyrir góðan árangur á árinu 2014, í glímu, hestaíþróttum, knattspyrnu og frjálsum íþróttum.