Auglýsing um skipulagsmál í Uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi

Fréttir 16.11.2011
Bláskógabyggð,Grímsnes-og Grafningshreppi,Hrunamannahreppi, Skeiða-og Gnúpverjahreppi og Flóahreppi Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er auglýst niðurstaða sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps fyrir eftirfarandi aðalskipulagsbreytingu: 1. Óveruleg breyting á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 vegna námu í landi Eyvindartungu í Bláskógabyggð. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkti á fundi 3. nóvember 2011 óverulega breytingu á Aðalskipulagi Laugardalshrepps 2000-2012 sem felur í sér að gert er ráð fyrir námu í landi Eyvindartungu við Lyngdalsheiðarveg.  Náman er staðsett um 3 km vestan við Laugarvatn og er í jaðri efnistökusvæðis sem nýtt var við gerð Lyngdalsheiðarvegar. Náman kemur til með að ná yfir allt að 2 ha svæði og er áætlað efnismagn allt að 49.900 rúmmetrar. Breytingin felur einnig í sér að efnistökusvæði nr. 3,5,6,7,9, 14, og 15 er felld út í tengslum við framkvæmdalok Lyngdalsheiðarvegar. Samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér með auglýst eftir athugasemdum við eftirfarandi deiliskipulagsáætlanir: 2. Tillaga að deiliskipulagi fyrir bæjartorfu Efsta-Dals II í Bláskógabyggð. Kynnt er tillaga að deiliskipulagi fyrir bæjartorfu Efsta-Dals II og er nær skipulagssvæðið til um 5 ha svæðis. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir byggingarreit fyrir tvö ný gistihús (G-1), nýtt hesthús og reiðskemmu (Ú-2), tvö ný íbúðarhús ásamt bílskúr (Í-1 og í-3) auk þess sem heimilt er að stækka núverandi hlöðu-/fjós (Ú-1), hesthús (Ú-3) og íbúðarhús (Í-2). Þá er einnig gert ráð fyrir að hluti núverandi hesthúss verði rifið og þar komi ný aðkoma að svæðinu. 3. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi 60 ha spildu úr landi Þingdals með landnr. 203004 í Flóahreppi. Lögbýli og frístundabyggð. Kynnt er tillaga að breytingu á deiliskipulagi um 60 ha spildu úr landi Þingdals með landnr. 203004. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi er svæðið skilgreint sem 60 ha lögbýli með einum um 1,5 ha byggingarreit á norðausturhluta spildunnar þar sem heimilt er að reisa íbúðarhús, gestahús og útihús. 4. Tillaga að breytingu á skilmálum deiliskipulags tveggja samliggjandi frístundabyggða í Bláskógabyggð sem saman kallast Holtahverfi. Kynnt er tillaga að breytingu á skilmálum tveggja samliggjandi deiliskipulagsáætlana í landi Fells sem ná yfir frístundabyggð sem kallast Holtahverfi. Hverfið nær yfir götur sem heita Tunguholt, Hamarsholt, Hvammsholt, Háholt, Hlíðarholt og Lyngholt. Í breytingum felst að verið er að samræma skilmála innan svæðisins til samræmis við samþykktir sveitarfélagsins um byggingarmagn í frístundabyggðarhverfum. Í því felst að á hverri lóð verður heimilt að reisa eitt frístundahús og eitt aukahús. Hámarksbyggingarmagn miðast við nýtingahlutfallið 0.03, þ.e. á lóð sem er 0,5 ha má byggja allt að 150 fm og á lóð sem er 0,75 ha má byggja allt að 225 fm. Stærð aukahúss má þó ekki fara upp fyrir 30 fm. Skipulagstillögurnar liggja frammi á skrifstofu skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu, Dalbraut 12, Laugarvatni á skrifstofutíma frá 9-16. Að auki er hægt að nálgast nánari lýsingu á tillögunum og tillögurnar sjálfar á vefslóðinni http://www.sveitir.is/skipulagsfulltrui/auglysingar/. Kynningartími fyrir skipulagstillögur 2 - 4 er frá 17. nóvember til 30. desember 2011. Athugasemdir við tillögur 2-4 skulu berast skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu í síðasta lagi 30. desember 2011 og skulu þær vera skriflegar. Hver sá sem ekki gerir athugasemdir við tillögurnar innan tilskilins frests, telst vera samþykkur þeim. Pétur Ingi Haraldsson Skipulagsfulltrúi uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps