Aratunga 50 ára

Fréttir 21.10.2011
Laugardagskvöldið 22. október verður seinni hlutinn í hátíðarhöldum af tilefni af 50 ára afmæli Aratungu haldinn. Húsið opnar kl 20:00 með fordrykk og skemmtunin hefst svo kl. 20:30. Margt skemmtilegt verður á boðstólum m.a. brot úr Lénharði fógeta, í uppfærslu Leikdeildar UMF Bisk, en Lénharður fógeti var fyrsta leikritið sem sett var upp í Aratungu. Byggingarsaga hússins verður sögð sem Garðar Hannesson hefur tekið saman, tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Árnessýslu, söngur og þá verður opnuð ljósmyndasýning, í umsjón Skúla Sæland, sem sýnir byggingarsögu hússins.  Myndlistarsýning verður í Aratungu í umsjón Arnar Erlendssonar og einnig mun Guðrún Hárlaugsdóttir segja frá skemmtilegum atvikum sem áttu sér stað á símstöðinni á sínum tíma. Þá mun fyrsta ræðan sem flutt var í Aratungu, vígsludaginn 9. Júlí 1961 verða endurflutt. Veitingar verða á boðstólum sem eftirtaldir aðilar hafa umsjón með: Kvenfélag Biskupstungna, Hestamannafélagið Logi, Ungmennafélag Biskupstungna, Búnaðarfélag Bláskógabyggðar, Björgunarsveit Biskupstungna og Bláskógabyggð. Það er von okkar í afmælisnefndinni að íbúar sveitarfélagsins og aðrir velunnarar Aratungu mæti og eigi gott og skemmtilegt kvöld saman. Sérstaklega eru hvattir til að mæta þeir aðilar sem unnu í sjálfboðavinnu við bygginguna á sínum tíma.   Með von um gott og skemmtilegt kvöld Afmælisnefnd Aratungu.