Aðgerðir til að draga úr áhrifum COVID-19

Fréttir 03.04.2020
Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem haldinn var í gær var bókuð eftirfarandi samantekt um aðgerðir Bláskógabyggðar til að draga úr áhrifum COVID-19:
?Á 254. fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar hinn 27. mars s.l. var samþykkt að fresta gjalddögum fasteignagjalda í mars, apríl, maí og júni fyrir rekstraraðila sem verða fyrir verulegu tekjutapi af völdum COVID-19. Nánari útfærsla frestunar verður kynnt í apríl. Einnig var samþykkt að breyta fyrirkomulagi á innheimtu þjónustugjalda í frístund og leikskólum. Gjöld verða innheimt eftir á, í stað fyrirfram, og einungis fyrir veitta þjónustu í þeim tilvikum sem hún er skert. Kjósi foreldrar að halda börnum alveg heima heilar vikur falla niður öll gjöld fyrir viðkomandi viku. Gildistími árskorta í íþróttamiðstöð lengist sem nemur lokun vegna COVID-19. Hvað fjárfestingar og viðhald á vegum Bláskógabyggðar varðar er stefnt að því að halda að lágmarki óbreyttri áætlun hvað það varðar, þrátt fyrir að fyrirséð sé að tekjur sveitarfélagsins munu dragast verulega saman. Heildarfjárfestingaáætlun sveitarfélagsins nemur 292 milljónum kr. og eru þá ekki talin minni viðhaldsverkefni sem teljast til rekstrarútgjalda. Meðal verkefna má nefna: Lagningu ljósleiðara, gatnagerð vegna nýrrar götu (Brekkuholts), viðhald skólabygginga og endurbætur á skólalóðum og leikvelli í Laugarási, endurbætur á íþróttamannvirkjum og könnun á því hvort unnt sé að byggja ofan á íþróttahúsið á Laugarvatni að hluta, haldið verður áfram með hönnun á endurbótum á sundlauginni í Reykholti, malbikun og frágang göngustíga, auk framkvæmda á vegum vatns- og hitaveitu og hönnun úrlausna í fráveitu. Þá er gert ráð fyrir framkvæmdum við hverinn á Laugarvatni í samræmi við styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Loks mun sveitarstjórn skoða það gaumgæfilega að færa framkvæmdir yfir á þetta ár, sem eru á áætlun á næstu árum. Sveitarfélagið hefur komið á framfæri við ríkið að leggja áherslu á samgöngubætur, uppbyggingu á ferðamannastöðum og á viðhald eigna í eigu ríkisins í tenglsum við aðgerðir ríkisins tengt COVID-19. Það er ljóst að erfiðir tímar eru framundan í þjóðfélaginu vegna þeirra áhrifa sem COVID-19 hefur á atvinnulífið, þá sérstaklega á ferðaþjónustuna. Sveitarstjórn mun fylgjast vel með stöðu mála og leita leiða til að milda áhrif faraldursins á heimili og atvinnulíf í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn er þess fullviss að við munum komast í gegnum þennan faraldur sem við erum stödd í með góðri samstöðu og samvinnu.?     Kv Ásta