Aðalskipulag Bláskógabyggðar

Fréttir 04.04.2014
Bláskógabyggð verður með opið hús um aðalskipulag sveitarfélagsins þriðjudagskvöldið 8. apríl, frá kl. 19:00 til     kl. 22:00 í Aratungu. Skipulagsráðgjafi kynnir drög að lýsingu vegna aðalskipulagsvinnu. Skipulagsfulltrúi og sveitarstjórnarmenn verða einnig á staðnum til skrafs og ráðagerða. Íbúar og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að mæta á staðinn og ræða sínar hugmyndir.   Aðalskipulag er skipulagsáætlun sem byggir á Skipulagslögum nr. 123 frá 2010. Skipulagið tekur til alls lands viðkomandi sveitarfélags. Í aðalskipulagi setur sveitarstjórn fram stefnu um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu til minnst tólf ára. Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir deiliskipulagsgerð einstakra svæða í sveitar­félaginu. Við gerð aðalskipulags skal byggt á markmiðum skipulags- og byggingarlaga, fyrirliggjandi áætlunum sem varða sveitarfélagið og áætlunum um þróun og þarfir sveitarfélagsins á skipulagstímabilinu. Sveitar­stjórn ber að vinna að aðalskipulagi í samráði við íbúa sveitarfélagsins og aðra hagsmuna­aðila, auk þess sem sveitarstjórn ber að leita til ýmissa opinberra aðila við mótun aðalskipulags­stefn­unnar. Ferli aðalskipulags er aðgerð er Lýsing fyrir aðalskipulag sem er kynnt og auglýst. Hagsmunaaðilum gefst kostur á að koma athugasemdum og ábendingum á framfæri við sveitarastjórn. Þá er unnin tillaga aðalskipulags sem kynnt er íbúum og öðrum hagsmunaaðilum áður en sveitarstjórn samþykkir að auglýsa tillöguna. Að lokinni auglýsingu tekur sveitarstjórn tillöguna til meðferðar, svarar athugasemdum og sendir til Skipulagsstofnunar til formlegrar afgreiðslu. Aðalskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn og staðfest af Skipulags­stofnun.