Á döfinni hjá Markaðsstofu Suðurlands

Fréttir 16.12.2009
Sameiginlegur landshlutabæklingur og Vestnorden Í september s.l. gaf Markaðsstofa Suðurlands út sameiginlegan landshlutabækling  þar sem öll ferðaþjónustufyrirtæki eru grunnskráð, en það hafði ekki verið gert áður. Þessi ?opinbera upplýsingahandbók?  er í líkingu við samskonar bæklinga frá markaðsstofum hinna landshlutanna og veitir erlendum og innlendum ferðamönnum um Suðurland upplýsingar um sveitarfélög landshlutans og helstu bæi, sögu, menningu og listir, afþreyingu, náttúru, gistingu og fleira. Dreifing bæklingsins hefur gengið prýðilega og stefnt er að aukinni dreifingu í allan vetur og ekki síður með hækkandi sól. Dreifing hefur einnig farið fram víða erlendis til ferðaskrifstofa með áherslu á Íslandsferðir en Markaðsstofa Suðurlands kynnti Suðurland á ferðakaupstefnunni Vest Norden sem haldin var í Kaupmannahöfn í september s.l. þar sem nýja landshlutabæklingnum var mjög vel tekið. Þátttaka sveitarfélaga og fyrirtækja Eins og áður hefur verið getið eru sjö markaðsstofur starfandi á landsvísu, á Suðurlandi, Norðurlandi, Austurlandi, Vesturlandi, Vestfjörðum, Reykjanesi og loks Höfuðborgarstofu. Milli þeirra ríkir góð og farsæl samvinna þar sem þekkingu og reynslu er miðlað á milli aðila en í því felst vitaskuld styrkur og hagræðing. Fyrir hönd ríkisvalds undirrituðu Ferðamálastjóri og Iðnaðarráðherra samninga við stofurnar í mars s.l. en framvegis er einnig gert ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga og fyrirtækja að rekstri stofanna á móti ríkinu. Hjá hinum eldri stofunum taka sveitarfélögin þátt og síðustu vikur hefur verið unnið markvisst að því hjá Markaðsstofu Suðurlands að sveitarfélögin fimmtán innan landshlutans verði með. Þetta starf hefur gengið afar vel og nú þegar hafa flest sveitarfélögin samþykkt aðild. Í dag eru svo tæplega 60 ferðaþjónustufyrirtæki nú þegar aðilar að Markaðsstofu Suðurlands sem er mikið fagnaðarefni á fyrstu mánuðum starfseminnar. Þessir aðilar koma til með að taka þátt í starfsemi stofunnar og þeim verkefnum sem framundan eru. Hvað er framundan? Til að byrja með eru miklar breytingar í vefumhverfinu. Í nóvember s.l. ákvað Ferðamálastofa að endurgera sína heimasíðu www.visiticeland.com og byggja hana upp á sömu forsendum og vefir markaðsstofa landshlutanna. Í framhaldi hefur verið unnið að því að endurbæta vefumhverfi markaðsstofanna og Ferðamálastofu og stefnt er að því að nýr vefur Ferðamálastofu og uppfærðir vefir stofanna fari í loftið um miðjan janúar með mun betri flokkunum, nýju viðburðadagatali, bókunarþjónustu auk kortagrunns svo fátt eitt sé nefnt. Framundan er einnig ljósmyndasamkeppni á south.is, frétta- og upplýsingavefur Markaðsstofu Suðurlands fer í loftið og vinnuhópar stofunnar um markaðs- og ímyndarmál taka til starfa. Vert er að nefna þátttöku Markaðsstofu Suðurlands í ferðasýningunni Reiseliv í Noregi 14.-17. janúar n.k. Sýningin er í fjóra daga, fyrstu tvo hittast fyrirtæki í ferðaþjónustu til að koma á viðskiptasamböndum og síðari tvo er hún opin almenningi. Í fyrra voru um 43.000 manns á umræddri sýningu. Loks er í undirbúningi heimsókn erlendra blaðamanna á Suðurland og síðast en ekki síst klasadagur í febrúar í samvinnu við Ferðamálasamtök Suðurlands og Atvinnuþróunarfélag Suðurlands þar sem hinir ýmsu klasar á Suðurlandi hittast til þess að kynna starfsemina og til þess að fræðast um hvort annað með aukið samstarf að leiðarljósi. Nánari upplýsingar um verkefni stofunnar veitir Ólafur Hilmarsson í síma 483-5555 eða með tölvupósti, info@south.is.