Sveitarstjórn Bláskógabyggðar

356. fundur 20. mars 2024 kl. 09:00 - 10:45 í Aratungu, Reykholti
Nefndarmenn
  • Helgi Kjartansson Aðalmaður
  • Stefanía Hákonardóttir Aðalmaður
  • Sveinn Ingi Sveinbjörnsson Aðalmaður
  • Guðrún S. Magnúsdóttir Aðalmaður
  • Guðni Sighvatsson Aðalmaður
  • Anna Greta Ólafsdóttir Aðalmaður
  • Jón Forni Snæbjörnsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Ásta Stefánsdóttir Sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá
Lagt var til að erindi um matsskyldu Uxahryggjarvegar verði tekið á dagskrá fundarins. Var það samþykkt og verður 20.liður á dagskrá fundarins.

1.Fundargerð skipulagsnefndar

2401024

-liður 7 af af 273. fundi haldinn 31.01.2024, Reykjabraut 1 Laugarvatni; Mænishæð og byggingarreitur; Deiliskipulagsbreyting - 2401063. Áður frestað á 353. og 354. fundi fundi.
Jón Forni Snæbjörnsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
Lögð er fram umsókn að nýju er varðar breytingu á deiliskipulagi þéttbýlisins að Laugarvatni. Málinu var frestað á fundi sveitarstjórnar þann 21.2.24 þar sem umsækjanda var gert að gera nánar grein fyrir þeim breytingum sem óskað er eftir að unnið verði á deiliskipulagi sem einnig nær til byggingarreits og göngustígs. Jafnframt óskaði sveitarstjórn eftir mynd sem lýsti afstöðu hússins m.v. nærliggjandi hús. Fyrir liggur bréf málsaðila þar sem nánar er gert grein fyrir viðkomandi breytingum ásamt uppdrætti sem tekur til breytinga á gildandi deiliskipulagsuppdrætti. Jafnframt eru lagðar fram myndir sem sýna afstöðu hússins m.v. Reykjabraut 3 og 5. Í breytingunni felst að skilmálum lóða við Reykjabraut verði breytt með þeim hætti að í stað hæðar og kjallara verði heimildir fyrir húsi á 1 hæð með risi. Hámarkshæð húsa verði 6,8 metrar í stað 5,9 metra frá gólfplötu aðalhæðar. Að auki er gert ráð fyrir að skilgreindur göngustígur á milli Reykjabrautar 1 og 3 verði felldur út úr skipulagi og byggingarreitur lóðarinnar verði stækkaður svo að bílskúr rúmist innan reitsins í samræmi við framlagðan uppdrátt. Aðrir skilmálar deiliskipulagsins eru óbreyttir.
Bókun skipulagsnefndar UTU var á þá leið að nefndin taldi framlagða umsókn falla illa að núverandi götumynd húsa að Reykjabraut, heimildir til hámarkshæðar húsa væru töluvert rúmar m.t.t. núverandi hæða á húsum á lóðum Reykjabrautar 3 og 5. Hæð þessara húsa er í dag um 4 metrar m.v. götuhæð en heil hæð er í niðurgröfnum kjallara sem stallast niður brekkuna til austurs.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að unnin verði breyting á deiliskipulagi þéttbýlisins að Laugarvatni eins og lagt er upp með í framlagðri umsókn á lóð Reykjabrautar 1. Í breytingunni felst að göngustígur á milli Reykjabrautar 1 og 3 verði felldur niður, byggingarreitur lóðarinnar er stækkaður, mænishæð verði heimiluð 6,8 metrar frá gólfplötu aðalhæðar og að gert verði ráð fyrir heimild fyrir húsi á einni hæð með risi í stað húss á einni hæð með kjallara. Mælist sveitarstjórn til þess að breytingin verði auglýs á grundvelli 1.mgr.43. gr. skipulagslaga er varðar verulega breytingu á deiliskipulagi. Að mati sveitarstjórnar er nauðsynlegt að kynna fyrirhugaðar breytingar sérstaklega aðliggjandi lóðarhöfum og nágrönnum Lindarbrautar 1a, 1b, 3, 5, 7 og 9 auk Reykjabrautar 3 og 5.

2.Fundargerð skipulagsnefndar

2401024

-liður 4 af 275. fundi haldinn 28.02.2024, Heiðarbær við Þingvallavatn; Frístundabyggð; Deiliskipulag - 2206013. Áður frestað á 355. fundi.
Heiðarbær við Þingvallavatn; Frístundabyggð; Deiliskipulag - 2206013
Lögð er fram tillaga er varðar nýtt deiliskipulag frístundabyggðar Heiðarbæjar við Þingvallavatn eftir auglýsingu. Markmið deiliskipulagsins er að hafa til staðar deiliskipulag sem gefur heildarmynd af svæðinu þar sem lóðarmörk, aðgengi og gönguleiðir eru skýrar. Jafnframt að fylgja eftir stefnu Bláskógabyggðar um að til skuli vera deiliskipulag fyrir eldri frístundasvæði. Með deiliskipulagsgerðinni er unnið að því að samþætta lóðamörk, auka skilvirkni við umsýslu á lóðum ásamt því að ramma inn svæðið og nýtingu þess í heild og einstaka þætti þess s.s. innviði, náttúruvernd og aðgengi. Athugasemdir og umsagnir bárust á auglýsingatíma skipulagsins og eru þær lagðar fram við afgreiðslu málsins ásamt samantekt viðbragða og andsvara.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagt deiliskipulag eftir auglýsingu. Sveitarstjórn telur að brugðist hafi verið við umsögnum sem bárust vegna málsins með fullnægjandi hætti innan gagnanna og innan samantektar málsaðila þar sem við á. Sveitarstjórn mælist til þess að deiliskipulagið taki gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni yfirferð Skipulagsstofnunar í samræmi við 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þeim sem athugasemdir gerðu við málið verði tilkynnt um niðurstöðu sveitarstjórnar.

3.Fundargerð skipulagsnefndar

2401024

276. fundur haldinn 13.03.2024. Afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 3 til 11.
-liður 3, Dalbraut 10-12 Laugarvatni; Breytt lóðarmörk og byggingarreitir; Deiliskipulagsbreyting; - 2403022
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar er varðar lóðirnar Dalbraut 10 og 12 á Laugarvatni. Í breytingunni felst breytt lega lóða og byggingarreita, skilgreiningar á bílastæðum og nýrri útakstursleið niður Torfholt. Samhliða er heimildum er varðar hæðarfjölda á Dalbraut 12 breytt í 2h og kjallara til samræmis við hús á lóð 10.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar breytingu á deiliskipulagi og verði auglýst. Sveitarstjórn mælist til þess að breytingin verði sérstaklega kynnt eigendum Torfholts 2, 4, 6 og 8 og Lindarbraut 10. Jón Forni Snæbjörnsson sat hjá við afgreiðslu málsins.



-liður 4, Útey 2 L167648; Mýrarskógur og Eyjavegur; Breyttir landnotkunarflokkar; Aðalskipulagsbreyting - 2212016
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027 er varðar Útey 2, eftir kynningu. Breytingin nær til þess hluta af frístundasvæði F21 sem er innan Úteyjar 2 L167648 auk nýrra svæða austan Laugarvatnsvegar. Reitur F21 nær yfir nokkrar jarðir en í breytingu þessari er aðeins lagt til að breyta þeirri landnotkun sem er innan Úteyjar 2 og í henni felst tilfærsla á frístundasvæði í landbúnaðarsvæði og öfugt.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna Úteyjar 2 í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Mælist sveitarstjórn til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31. gr. sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar, þá óskar sveitarstjón eftir að kannað verði hvort tillit hafi verið tekið til þess í umsögn Vegagerðarinnar að fyrirhuguð vegtenging að frístundasvæði er á blindhæð.



-liður 5, Stórafljót lóð (Sólbraut 4) 176483, Reykholti; Fyrirspurn; Breyting vegna heimilda til útleigu - 2403019
Lögð er fram fyrirspurn er varðar breytingu á deiliskipulagi er varðar Sólbraut 4, Reykholti. Í fyrirspurninni felst að óskað er eftir breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar þar sem heimilt verði að stunda rekstrarleyfisskylda starfsemi á lóðum skilgreindum sem L3 enda slíkt í samræmi við fyrirliggjandi aðalskipulag. Ljóst er að ekki eru margar lóðir skilgreindar sem L3 og ljóst að slíkt myndi ekki brjóta gegn þeirri þróun að heimila ekki rekstrarleyfisskyldu á íbúðarhúsalóðum.
Innan deiliskipulags að Reykholti er sett fram ákveðin stefnumörkun um uppbygging á atvinnustarfsemi innan þorpsins á íbúðarsvæðum og er þeim heimildum skipt eftir gerð, staðsetningu og stærð lóða. Í stefnumörkum um uppbyggingu á E2 lóð er tilgreint sérstaklega að á hverri lóð sem er stærri en 3.500 fm sé heimilt að stunda rekstrarleyfisskylda gistingu fyrir allt að 10 manns. Settir eru upp ýmsir fyrirvarar fyrir slíkum rekstri. Þessar heimildir eiga ekki við aðrar skilgreiningar vegna íbúðarlóða. Landbúnaðarlóðum er skipt upp í 3 mismunandi flokka eftir stærð og umfangi heimilda, er þar L1 eini flokkurinn þar sem gert er ráð fyrir sambærilegri heimild og á E2 auk þess sem heimildir eru tilgreindar fyrir starfsmannahúsum, skemmum og gróðurhúsum. Af skilgreindum stærðum lóða má sjá að meðalstærð L3 lóða er í kringum 2.200 fm en meðalstærð L1 lóða er í kringum 10.200 fm. Að mati sveitarstjórnar er því ljóst að stefnumörkun deiliskipulags var ætlað að beina slíkum rekstri inn á skilgreindar verslunar- og þjónustulóðir og stærri íbúðar- og/eða landbúnaðarlóðir. Að mati sveitarstjórnar er nauðsynlegt að skilgreina með einhverjum hætti takmarkanir á heimildum til rekstrarleyfisskyldrar útleigu íbúðarhúsa innan þéttbýlis óháð því hvort lóðin er skilgreind sem íbúðar- eða landbúnaðarlóð, eins og gert er nú þegar í deiliskipulagi fyrir Reykholt. Að mati sveitarstjórnar myndi breyting á heimildum L3 þar sem heimiluð væri rekstrarleyfisskyld útleiga skapa fordæmi fyrir rekstri á mun fleiri lóðum innan þéttbýlisins í Reykholti með ófyrirséðum afleiðingum fyrir eðlilega þróun íbúðarbyggðar og fasteignaverðs á svæðinu. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar synjar framlagðri fyrirspurn.



-liður 6, Efsti-Dalur 3 L228717; Efnistaka úr námu; Gámur; Framkvæmdarleyfi - 2402058
Lögð er fram beiðni um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr skilgreindu efnistökusvæði E41 í landi Efsta-Dals 3 Völlur L228717. Efnistakan er fyrirhuguð til þess að gera veg frá þjóðvegi og inn á landið, skv. samþykktum uppdráttum. Heildarefnistaka verði um 30.000 m3. Samhliða er óskað heimildar til þess að setja tvo gáma á svæðið til þess að nýta sem kaffi- og verkfærageymsluaðstöðu meðan á vegagerð og hugsanlegum borunarframkvæmdum fyrir heitu vatni stendur. Sótt verður sérstaklega um framkvæmdaleyfi fyrir borun eftir heitu vatni.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um grenndarkynningu til landeigenda L167631 og L199008 og að leitað verði umsagnar skógræktarinnar vegna efnistöku innan skilgreinds hverfisverndarsvæðis sem tekur til birkikjarrs og birkiskógar. Ekki eru gerðar athugasemdir við að í tengslum við framkvæmdina verði komið upp aðstöðu í tveimur gámum innan svæðisins. Sveitarstjórn vísar því til umsækjanda að samhliða verði sótt um stöðuleyfi hjá byggingarfulltrúa vegna viðkomandi gáma, stöðuleyfi er gefið út til árs í senn.



-liður 7, Laugarvatn L167638; Krikinn 2 L236093; Tenging lóðar, færsla vatnsrásar; Framkvæmdarleyfi - 2403030
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna tengingar lóðarinnar Krikinn 2 L236093 við Lindarskóg og færslu á vatnsrás sem liggur um lóðina út fyrir lóðarmörk á svæði meðfram Lindarskógi, svo sem sýnt er á lóðarblaði.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem engir aðrir hagsmunaaðilar eru innan svæðisins sem framkvæmdin tekur til en umsækjandi er ekki talin þörf á grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúa er falið að gefa út framkvæmdaleyfi.



-liður 8, Laugarás L167138; Uppsetning 250 PE hreinsistöðvar; Framkvæmdarleyfi - 2403029
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til uppsetningar á 250 PE hreinsistöðvar fráveitu í Laugarási fyrir Vesturbyggð, Holtagötu, Skyrklettagötu og Skálholtsveg 1. Staðsett við reit 9a innan deiliskipulags að Laugarási.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og heimilda gildandi deiliskipulags svæðisins. Skipulagsfulltrúa er falið að gefa út framkvæmdaleyfi.



-liður 9, Brautarhóll L190000; Uppsetning á 900 PE hreinsistöð; Framkvæmdarleyfi - 2403028
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til uppsetningar á 900 PE hreinsistöð í Reykholti á lóð við enda Tungurima í takt við deiliskipulag svæðisins.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og heimilda gildandi deiliskipulags svæðisins. Skipulagsfulltrúa er falið að gefa út framkvæmdaleyfi.



-liður 10, Brautarhóll L190000; Borgarrimi 16 og 18-22; Gatnagerð; Framkvæmdarleyfi - 2403026
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi er varðar gatnagerð við Borgarrima 16 og 18 - 22.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og heimilda gildandi deiliskipulags svæðisins. Skipulagsfulltrúa er falið að gefa út framkvæmdaleyfi.



-liður 11. Lindarbraut, Reykjabraut og Bjarkarbraut; Endurnýjun fráveitu; Framkvæmdarleyfi - 2403025
Lögð er fram umsókn um framkvæmdaleyfi sem tekur til endurnýjun fráveitu í Reykjabraut og Lindarbraut, að Lindarbraut 6 (grunnskóli) og hús við Bjarkarbraut að bílastæðum Fontana.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og heimilda gildandi deiliskipulags svæðisins. Skipulagsfulltrúa er falið að gefa út framkvæmdaleyfi.

Fundargerðin var lög fram til kynningar hvað aðra liði varðar.

4.Fundargerð stjórnar Bergrisans bs

2401031

70. fundur haldinn 26.02.2024, afgreiða þarf sérstaklega lið nr. 4
-liður 4, gjaldskrá vegna stuðningsfjölskyldna og notendasamninga. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir samhljóða gjaldskrá vegna stuðningsfjölskyldna og notendasamninga fyrir árið 2024.
Fundargerðin var lögð fram til kynningar hvað aðra liði varðar.

5.Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

2401019

945. fundur haldinn 28.02.2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

6.Fundargerðir stjórnar Byggðasafns Árnesinga

2301017

9. fundur haldinn 16.10.2023

10. fundur haldinn 06.11.2023
Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.

7.Fundargerð stjórnar Byggðasafns Árnesinga

2401016

11. fundur haldinn 11.03.2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

8.Fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu

2401012

18. fundur haldinn 29.02.2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

9.Fundargerð afgreiðslufunda byggingarfulltrúa

2401025

200. fundur haldinn 06.03.2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar. Liður 16 í fundargerðinni er sérstakur dagskrárliður á þessum fundi, sjá 21. lið.

10.Fundargerð stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga

2401020

69. fundur haldinn 23.02.2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

11.Fundargerð oddvitanefndar

2401029

5. fundur haldinn 22.02.2023
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

12.Lóðarumsókn Borgarrimi 14, Reykholti

2403016

Umsókn HS húsa ehf um lóðina Borgarrima 14, Reykholti
Lóðin hefur verið auglýst laus til umsóknar og ein umsókn borist. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að úthluta lóðinni til HS húsa ehf.
Fylgiskjöl:

13.Styrkbeiðni foreldrafélags Reykholtsskóla

2403018

Erindi foreldrafélags Reykholtsskóla, dags. 15.03.2024, þar sem óskað er eftir styrk að fjárhæð kr. 50.000 vegna fyrirlesturs.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að styrkja foreldrafélagið um 50.000 kr. í samræmi við erindið. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.

14.Áskorun til sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga 2024

2403019

Bréf framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélags, dags. 8. og 13. mars 2024 vegna kjarasamninga og yfirlýsingar formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 7. mars 2024 um stuðning vegna kjarasamninga.
Gögnin voru lögð fram. Umræða varð um málið. Allt frá árinu 2019 hefur Bláskógabyggð boðið gjaldfrjálsar skólamáltíðir í leik- og grunnskólum sveitarfélagsins. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að fela sveitarstjóra að leggja fram tillögu að breytingum á gjaldskrám með hliðsjón af framlögðum gögnum.

15.Undanþága frá skipulagsreglugerð vegna Eyjaás 16, Eyvindartungu

2311014

Beiðni dr. Sigríðar Kristjánsdóttur, f.h. Teits Eyjólfssonar, dags. 13.03.2024, um endurupptöku ákvörðunar um að veita neikvæða umsögn um beiðni um undanþágu frá skipulagsreglugerð.
Jón Forni Snæbjörnsson vék af fundi við afgreiðslu málsins.
Á 348. fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar sem haldinn var 6. desember s.l. var tekin fyrir beiðni Innviðaráðuneytisins um umsögn um beiðni Teits Eyjólfssonar um undanþágu frá ákvæðum 5.3.2.14. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 er varðar fjarlægðir frá ám og vötnum vegna lóðar 192111 í Eyvindartungu, Eyjaás 16, Bláskógabyggð. Áður hafði málinu verið frestað á 346. fundi til að fulltrúar í sveitarstjórn gætu kynnt sér staðhætti. Undanþágubeiðni Teits Eyjólfssonar var ítarleg og fylgdu henni skipulagsgögn, uppdrættir, afsal og yfirlit úr opinberum skrám, svo sem fasteignaskrá.
Niðurstaða sveitarstjórnar var sú að leggjast gegn því að undanþágan væri veitt.
Framlagt erindi varðar beiðni um endurupptöku ákvörðunar sveitarstjórnar um að veita neikvæða umsögn um undanþágu frá ákvæðum skipulagsreglugerðar um fjarlægð mannvirkja frá vötnum, ám eða sjó.
Um skilyrði fyrir endurupptöku máls er mælt í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar er tilgreint að aðili máls eigi rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný, ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Öll málsatvik lágu fyrir í undanþágubeiðni Teits Eyjólfssonar, sem sveitarstjórn fjallaði um skv. beiðni Umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytisins þann 6. desember s.l. Í endurupptökubeiðninni er ekki að finna viðbótarupplýsingar um staðhætti eða annað það sem umrædda landspildu varðar. Þá hafa atvik ekki breyst frá því að ákvörðun var tekin. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar synjar því beiðni um endurupptöku ákvörðunar um umsögn um beiðni Teits Eyjólfssonar um undanþágu frá ákvæðum skipulagsreglugerðar.
Ákvörðun þessi er kæranleg til Innviðaráðuneytisins skv. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kærufrestur þrír mánuðir.

16.Hópslysaæfing viðbragðsaðila í Árnessýslu

2403025

Beiðni æfingastjórnar viðbragðsaðila í Árnessýslu, dags. 17.03.2024, um samþykki Bláskógabyggðar fyrir því að haldin verði hópslysaæfing á gamla Lyngdalsheiðarveginum við Laugarvatn.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir fyrir sitt leyti ekki athugasemd við að æfingin verði haldin á því svæði sem um ræðir við Gjábakkaveg, en bendir á að landið þar sem áætlað er að æfingin muni fara fram er í eigu ríkisins.

17.Kaupsamningur um Dalbraut 12 Laugarvatni

2403026

Kauptilboð DB10 ehf í fasteignina Dalbraut 12, Laugarvatni.
Fyrir liggja drög að kauptilboði DB10 ehf í fasteignina Dalbraut 12 á Laugarvatni. Kaupverð er 75 millj.kr. Sveitarstjórn samþykkir kauptilboðið samhljóða og felur sveitarstjóra að undirrita það og önnur skjöl sem varða kaupin, svo sem kaupsamning, veðleyfi og afsal.

18.Verkefni heilsueflandi samfélags 2024

2403027

Gunnar Gunnarsson, verkefnastjóri, kemur inn á fundinn.
Gunnar Gunnarsson, íþrótta- og tómstundafulltrúi og verkefnastjóri heilsueflandi samfélags, kom inn á fundinn og ræddi um helstu verkefni ársins.

19.Aðalskipulagsbreyting hjá Kjósarhreppi

2403022

Tilkynning úr Skipulagsgáttinni, dags. 07.03.2024, um breytingu á aðalskipulagi Kjósarhrepps. Umsagnarfrestur er til 07.04.2024.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við tillöguna.

20.Ný- og endurbygging Uxahryggjarvegar (52) og Kaldadalsvegar (550)

2403031

Erindi úr Skipulagsgáttinni, dags. 20.03.2024, þar sem óskað er umsagnar um tilkynningu til ákvörðunar um matsskyldu vegna ný- og endurbyggingar Uxahryggjarvegar (52) í Bláskógabyggð og Borgarbyggð.
Erindið var lagt fram. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur ekki þörf á umhverfismati vegna fyrirhugaðra framkvæmda.

21.Rekstrarleyfisumsókn Vatnsholtsvegur 7 fnr. 231-8575

2403023

Erindi Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 22.02.2024, þar sem óskað er umsagnar um rekstrarleyfisumsókn vegna leyfis til reksturs gististaðar í flokki II H, frístundahús, vegna Vatnsholtsvegar 7, Bláskógabyggð.

Umsögn byggingarfulltrúa liggur fyrir.
Sveitarstjórn getur ekki fallist á að gefið verði út rekstrarleyfi í samræmi við umsóknina, enda samræmist það ekki ákvæðum aðalskipulags.

22.Aðalfundur Markaðsstofu Suðurlands 2024

2403017

Boð á aðalfund Markaðsstofu Suðurlands sem haldinn verður 19.04.2024 og auglýsing eftir framboðum til stjórnar.
Fundarboðið var lagt fram til kynningar.

23.Ársskýrsla Hestamannafélagsins Jökuls 2023

2403020

Tölvupóstur gjaldkera Hestamannafélagsins Jökuls, dags. 13.03.2024, þar sem send er ársskýrsla félagsins og fjárhagsáætlun.
Gögnin voru lögð fram til kynningar.

24.Ársskýrsla Byggðasafns Árnesinga 2023

2403021

Ársskýrsla Byggðasafns Árnesinga 2023
Ársskýrslan var lögð fram til kynningar.

25.Ársreikningur Laugaráslæknishéraðs 2023

2403024

Ársreikningur Laugaráslæknishéraðs 2023
Ársreikningurinn var lagður fram til kynningar.

26.80 ára afmæli lýðveldisins

2403001

Erindi formanns afmælisnefndar vegna 80 ára afmælis lýðveldisins, dags. 08.03.2024, þar sem óskað eftir samstarfi við sveitarfélög landsins í tengslum við hátíðardagskrána með miðlun og hvatningu um þátttöku.
Erindið var lagt fram til kynningar.

Fundi slitið - kl. 10:45.

Er eitthvað á síðunni sem betur má fara?