Sveitarstjórn Bláskógabyggðar

353. fundur 07. febrúar 2024 kl. 09:00 - 11:35 í Aratungu, Reykholti
Nefndarmenn
  • Helgi Kjartansson Aðalmaður
  • Stefanía Hákonardóttir Aðalmaður
  • Sveinn Ingi Sveinbjörnsson Aðalmaður
  • Guðrún S. Magnúsdóttir Aðalmaður
  • Guðni Sighvatsson Aðalmaður
  • Anna Greta Ólafsdóttir Aðalmaður
  • Jón Forni Snæbjörnsson Aðalmaður
Starfsmenn
  • Ásta Stefánsdóttir Sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri
Dagskrá

1.Fundargerð skipulagsnefndar

2401024

272. fundur haldinn 10.01.2024, -liður 8, Íshellir í Langjökli; Skilgreining afþreyingar- og ferðamannasvæðis; Aðalskipulagsbreyting - 2304027. Áður frestað á 351. fundi.
-liður 8, Íshellir í Langjökli; Skilgreining afþreyingar- og ferðamannasvæðis; Aðalskipulagsbreyting - 2304027
Lögð er fram tillaga aðalskipulagsbreytingar er varðar skilgreiningu nýs afþreyingar- og ferðamannasvæðis á Langjökli eftir kynningu. Ferðaþjónustufyrirtæki sem starfrækt eru á svæðinu bjóða upp á jöklaferðir og vilja geta boðið upp á íshellaskoðun allt árið um kring með því að gera manngerða íshella í Langjökli. Nú þegar er eitt skilgreint svæði fyrir manngerðan íshelli á jöklinum. Samhliða aðalskipulagsbreytingunni verður gert nýtt deiliskipulag þar sem gerð verður grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum og settir fram skilmálar um landnotkun og landnýtingu, skilgreind lóð fyrir manngerðan íshelli sem verður nýttur til ferðaþjónustustarfsemi og vernd náttúru- og menningarminjar. Svæðið sem um ræðir fyrir íshellinn er innan þjóðlendu og er í um 1.100 m h.y.s. og er ofan jafnvægislínu í suðurhlíðum Langjökuls. Fyrirhugaður íshellir er alfarið utan hverfisverndaðs svæðis við Jarlhettur. Skipulagssvæðið er alfarið á jökli og er aðkoma að jöklinum eftir vegi F336 sem tengist vegi nr. 35, Kjalvegi, á Bláfellshálsi.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagða tillögu að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins vegna skilgreiningar nýs afþreyingar- og ferðamannasvæðis á Langjökli í samræmi við 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Mælist sveitarstjórn til þess að tillagan verði auglýst skv. 1. mgr. 31 sömu laga að undangenginni samþykkt Skipulagsstofnunar.

2.Fundargerð skipulagsnefndar

2401024

273. fundur haldinn 31.01.2024, afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 5 til 10. Einnig lagður fram tölvupóstur Þórarins Þórarinssonar, dags. 04.02.2024.
-liður 5, Borgarrimi og Lyngbraut í Reykholti; Fjölgun íbúða og sameining lóða; Deiliskipulagsbreyting - 2401052
Lögð er fram tillaga óverulegrar breytingar á deiliskipulagi sem tekur til 7 lóða við Borgarrima og einna lóðar við Lyngbraut auk þess sem skilgreindar eru heimildir til uppbyggingar á fjarskiptamastri og tilheyrandi búnaði á lóð Reykholtsbrekku 6. Við Borgarrima er íbúðum fjölgað lítillega og skilmálum breytt. Bætt er við tveimur húsagerðum. Raðhús R3 þar sem heimilt er að byggja 5-6 íbúðir og R4 þar sem heimilt er að byggja hús á 2 hæðum, annað hvort raðhús með 3 íbúðum eða hús með 4 íbúðum þar sem gert er ráð fyrir tveimur á jarðhæð og tveimur á efri hæð. Við Lyngbraut er tvær lóðir sameinaðar í eina. Engar aðrar breytingar eru gerðar á skilmálum deiliskipulagsins.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt innan svæðisins. Skipulagsfulltrúa falið að meta grenndaráhrif og umfang grenndarkynningar.


-liður 6, Berghof 3 L218587; Stækkun lóðar og byggingarreits; Deiliskipulagsbreyting - 2401051
Lögð er fram tillaga deiliskipulagsbreytingar er varðar lóðina Berghof 3 L218587. Í breytingunni felst stækkun lóðar og byggingarreitar auk þess sem heimild er bætt í skipulagið sem tekur til vélageymslu/skemmu á einni hæð. Lega aðkomuvegar er leiðrétt á skipulagi í takt við núverandi legu hans.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir framlagða breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Málið fái málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er varðar óverulega breytingu á deiliskipulagi og verði grenndarkynnt næstu nágrönnum.


-liður 7, Reykjabraut 1 Laugarvatni; Mænishæð og byggingarreitur; Deiliskipulagsbreyting - 2401063
Lögð er fram umsókn er varðar breytingu á deiliskipulagi þéttbýlisins að Laugarvatni. Í breytingunni felst að skilmálum lóða við Reykjabraut verði breytt með þeim hætti að í stað hæð og kjallara verði heimildir fyrir húsi á 1,5 hæð. Hámarkshæð verði 6,8 metrar í stað 5,9 metra. Aðrir skilmálar deiliskipulagsins eru óbreyttir.
Sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins.

-liður 8, Fell L177478; Breytt landnotkun, landbúnaðarsvæði í frístundabyggð og verslunar- og þjónustusvæði; Aðalskipulagsbreyting - 2401054
Lögð er fram fyrirspurn er varðar heimild til vinnslu breytingar á aðalskipulagi Bláskógabyggðar 2015-2027. Um er að ræða breytingu sem tekur til lands Fells 177478 sem er skilgreint sem landbúnaðarland í dag. Gert er ráð fyrir því að svæðið verði skilgreint sem frístundasvæði og svæði fyrir verslun- og þjónustu.
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við framlagða fyrirspurn. Að mati sveitarstjórnar ætti viðkomandi staðsetning að henta ágætlega til uppbyggingar á verslunar- og þjónustutengdri starfsemi og frístundabyggð. Sveitarstjórn Bláskógabyggðar samþykkir að unnin verði skipulagslýsing sem tekur til aðalskipulagsbreytingar og gerð nýs deiliskipulags fyrir umrædd svæðið.


-liður 9, Gullfoss 1/2 L167192; Göngustígar; Framkvæmdarleyfi - 2208089
Lögð er fram umsókn frá Umhverfisstofnun er varðar útgáfu framkvæmdaleyfis. Í umsóttri framkvæmd felst endurgerð göngustíga á hluta efra útsýnissvæðisins á friðlandi við Gullfoss. Framkvæmdin er í samræmi við gildandi deiliskipulag og tengist inn á núverandi göngustíg á svæði D. Framkvæmdinni er skipt upp í svæði A og svæði B og verður með sambærilegum hætti og framkvæmd á svæði D. Áður hefur verið veitt framkvæmdaleyfi vegna framkvæmdarinnar en þar sem meira en ár er liðið frá útgáfu leyfisins er málið tekið fyrir að nýju.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir ekki athugasemd við útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli heimildar gildandi deiliskipulags fyrir Gullfoss. Mælist sveitarstjórn til þess að sótt verði um byggingarleyfi fyrir framkvæmdum sem háðar eru heimildum byggingarreglugerðar.

-liður 10, Holtsgata 13b (L221901); byggingarheimild, gróðurhús - 2401056
Móttekin er umsókn 17.01.2024 um byggingarheimild fyrir 53 m2 gróðurhúsi á íbúðar- og atvinnulóðinni Holtsgata 13b L221901 í Bláskógabyggð. Ný aðkoma er að lóð.
Sveitarstjórn Bláskógabyggar samþykkir að málið fái málsmeðferð á grundvelli 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 með fyrirvara um niðurstöðu grenndarkynningar. Að mati sveitarstjórnar er forsenda þess að ný tenging verði skilgreind frá Holtagötu að núverandi tengingu verði lokað. Berist engar athugasemdir vegna grenndarkynningar skal málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Fundargerðin var lögð fram til kynningar að öðru leyti.

3.Fundargerð framkvæmda- og veitunefndar

2401002

46. fundur haldinn 30.01.2024

Afgreiða þarf sérstaklega liði nr. 5, 7 og 16.
-liður 5, 2311004, viðhald Gíslaskála og Árbúða, sveitarstjórn frestar afgreiðslu málsins.
-liður 7, 2401062, söfnun lífræns úrgangs frá heimilum og af gámasvæðum, frágangur, fyrir liggur að flytja þurfi lífrænan úrgang til Sorpu til jaðgerðar og í því skyni verði að taka upp söfnun úrgangsins í bréfpoka í stað maíspoka. Þá þurfi að skipta um körfur sem ætlaðar eru undir pokana, en þær köfur sem fylgja bréfpokunum eru þannig hannaðar að það loftar um pokana og því endast þeir betur.
Tilboðs hefur verið aflað frá ÍG í körfur og eitt búnt af bréfpokum pr. notanda. Gert er ráð fyrir að pokarnir verði síðan seldir í verslunum.
Á fundi framkvæmda- og veitunefndar var lagt til við sveitarstjórn að pantaðar verði körfur og pokar. Kynnt verði fyrir íbúum að þessi breyting standi fyrir dyrum og að nauðsynlegt sé að allir taki þátt í þessum skiptum, ella mun ekki verða tekið við lífrænum úrgangi til jarðgerðar frá sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar og að gert verði ráð fyrir kostnaði (2.300.000 kr) í viðauka við fjárhagsáætlun sem liggur fyrir fundinum.
-liður 16, 2401070, á fundi framkvæmda- og veitunefndar var lagt til að sett verði upp loftræsikerfi í leikskólanum á Laugarvatni. Sveitarstjórn samþykkir tillögu nefndarinnar og að gert verði ráð fyrir kostnaði (2.000.000) í viðauka við fjárhagsáætlun sem liggur fyrir fundinum.

Fundargerðin var staðfest.

4.Fundargerð umhverfisnefndar

2301010

3. fundur haldinn 12.12.2023
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

5.Fundargerð ungmennaráðs

2401027

Fundur haldinn 19. janúar 2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

6.Fundargerðir starfshóps um endurskoðun forvarnastefnu

2312009

2. fundur haldinn 23.01.2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

7.Fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa

2401025

197. fundur haldinn 17. janúar 2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.
-liðir 21-27, Jón F. Snæbjörnsson óskaði eftir að bókað yrði að hann lýsi yfir ánægju með þann áfanga að bústaðir austan Þingvallavegar í Gjábakkalandi séu fjarlægðir og þannig bundinn endir á ferli er hófst með eignarnámi Gjábakkalands árið 1944.

8.Fundargerðir stjórnar Bergrisans bs

2301027

64. fundur haldinn 09.10.2023

65. fundur haldinn 09.11.2023

66. fundur haldinn 20.11.2023

67. fundur haldinn 04.12.2023
Fundargerðirnar voru lagðar fram til kynningar.

9.Fundargerð stjórnar Bergrisans bs

2401031

69. fundur haldinn 27.01.2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

10.Fundargerð stjórnar Brunavarna Árnessýslu

2401012

16. fundur haldinn 18. janúar 2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

11.Fundargerð fagnefndar Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings

2401022

2. fundur haldinn 09.01.2024, ásamt erindisbréfi fagnefndar sem þarfnast staðfestingar sveitarstjórnar
Fundargerðin var lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir erindisbréf fagnefndar.

12.Fundargerð stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga

2401020

68. fundur haldinn 10.01.2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

13.Fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

2401019

941. fundur haldinn 12.01.2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

14.Fundargerð stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS)

2401013

605. fundur haldinn 12.01.2024
Fundargerðin var lögð fram til kynningar.

15.Samþykkt um stjórn og fundarsköp Bláskógabyggðar breyting

2302029

Tillaga að breytingum á samþykkt um stjórn og fundarsköp Bláskógabyggðar, síðari umræða.
Sveitarstjórn samþykkir tillöguna samhljóða.

16.Reglur um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir

2401046

Reglur um stoðþjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Sveitarstjórn staðfestir reglurnar fyrir sitt leyti.

17.Starfshópur um skólastefnu

2309028

Skipan varamanns í starfshóp um skólastefnu fyrir formann skólanefndar og skipan fulltrúa leikskóla.
Sveitarstjórn samþykkir að Harpa Sævarsdóttir verði varamaður Áslaugar Öldu Þórarinsdóttur í starfshóp um skólastefnu og að Lieselot Simoen verði fulltrúi starfsmanna leikskóla í starfshópnum.

18.Félagssamningur Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs

2302026

Stofnsamningur Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings bs, til staðfestingar
Sveitarstjórn staðfestir samninginn fyrir sitt leyti.

19.Umsókn um styrk vegna húsaleigu, þorrablót 2024

2402004

Umsókn þorrablótsnefndar Skálholtssóknar, dags. 29.01.2024, þar sem sótt er um styrk á móti húsaleigu í Aratungu vegna þorrablóts.
Sveitarstjórn samþykkir að veita styrk á móti kostnaði við leigu Aratungu fyrir þorrablót. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.

20.Heimagisting í frístundabyggðum

2402006

Erindi Aðalheiðar Sigurðardóttur, fulltrúa í stjórn sumarhúsafélags í Vallarholti, dags. 24.01.2024, þar sem gerðar eru athugasemdir við útleigu sumarhúsa umfram lagaheimildir.
Erindið var lagt fram. Þar er óskað eftir liðsinni sveitarstjórnar við óheftri, eftirlitslausri útleigu frístundahúsa undir formerkjum heimagistingar í skipulagðri frístundabyggð innan sveitarfélagsins. Í erindinu, sem er ítarlegt, er rakið hvaða áhrif útleiga undir formerkjum heimagistingar, með eða án leyfis, hefur gjörbreytt nýtingu og notkun frístundahúsa og hvaða áhrif það hefur haft innan frístundabyggðar. Jafnframt eru rakin samskipti við eftirlitsaðila, sem er sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar þakkar fyrir erindið og tekur undir með bréfritara. Samkvæmt aðalskipulagi Bláskógabyggðar er útleiga frístundahúsa í atvinnuskyni ekki heimil og á síðustu mánuðum hefur sveitarstjórn á nánast hverjum fundi lagst gegn umsóknum um rekstrarleyfi til útleigu á frístundahúsum. Útleiga á grundvelli svokallaðrar 90 daga reglu er ekki háð leyfi eða umsögn sveitarstjórnar, en fjölmörg dæmi eru um slíka útleigu og tekur sveitarstjórn undir það með bréfritara að ekki er nægilegt eftirlit með slíkri starfsemi og hefur það áhrif á samkeppnisstöðu, auk þess sem dæmi eru um það að nágrannar verði fyrir ónæði af slíkri starfsemi. Sveitarstjórn hvetur sýslumann á höfuðborgarsvæðinu til þess að eftirlit verði aukið og reglum verði framfylgt.

21.Beiðni um skil á lóð, Vesturbyggð 7 Laugarási

2205049

Tilkynning Kristjóns Benediktssonar, dags. 18.01.2024, um að hann skili lóðinni Vesturbyggð 7, Laugarási.
Sveitarstjórn samþykkir að lóðinni verði skilað og felur sveitarstjóra að láta auglýsa hana lausa til umsóknar að nýju.

22.Viðauki við fjárhagsáætlun

2402009

Viðauki við fjárhagsáætlun 2024
Sveitarstjórn samþykkir viðauka við fjárhagsáætlun að fjárhæð kr. 28.500.000. Um er að ræða útgjöld vegna viðhalds eftirtalinna eigna: áhaldahúss (gömlu slökkvistöðvar), Reykholti, gufubaðs á Laugarvatni, skólastjórabústaðar Reykholti, leikskólans á Laugarvatni (loftræsing) og kostnað vegna breytingar á afsetningu á lífrænum úrgangi. Kostnaði er mætt með lækkun á handbæru fé.
Sveitarstjóra er falið að tilkynna viðaukann til viðeigandi aðila.

23.Viljayfirlýsing vegna kaupa á heitu vatni til uppbyggingar í ferðaþjónustu (baðlón, hótel)

1906021

Tillaga að breytingum á 7. gr. samnings um kaup Norverks ehf á heitu vatni fyrir baðlón (uppsagnarákvæði samnings).
Sveitarstjórn samþykkir breytinguna.

24.Gjaldskrá íþróttamiðstöðva 2024

2310018

Gjaldskrá íþróttamiðstöðva (leiðrétting á verði á kortum fyrir 14-16 ára)
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.

25.Gjaldskrá Aratungu og Bergholts leiga 2024

2310015

Gjaldskrá Aratungu og Bergholts
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.

26.Styrkbeiðni vegna kaup á gönguskíðaspori

2402011

Beiðni Björgunarsveitarinnar Ingunnar, dags. 02.02.2024, um styrk til kaupa á búnaði til að gera gönguskíðaspor.
Jón F. Snæbjörnsson vék af fundi við afgreiðslu erindisins. Erindið var lagt fram. Þar er óskað eftir styrk til að kaupa tækjabúnað til gerðar á gönguskíðaspori, en björgunarsveitin hefur um árabil annast gerð gönguskíðaspors. Sveitarstjórn samþykkir að styrkja björgunarsveitina um kr. 396.000 auk vsk í samræmi við framlagt tilboð. Kostnaður rúmast innan fjárhagsáætlunar.

27.Gjaldskrá leikskóla 2024

2310019

Gjaldskrá leikskóla
Lögð er fram uppfærð tillaga að gjaldskrá leikskóla, þar sem áður samþykkt gjaldskrá bauð upp á mismunandi túlkanir.
Sveitarstjórn samþykkir gjaldskrána.

28.Undanþága frá skipulagsreglugerð vegna Haukadals 4

2401072

Erindi Innviðaráðuneytisinns, dags. 4. desember 2023, þar sem óskað er umsagnar um ósk um undanþágu frá ákvæðum skipulagsreglugerðar vegna Haukadals 4.
Erindið var lagt fram. Með vísan til fyrra skipulags á svæðinu samþykkir sveitarstjórn samhljóða að veita jákvæða umsögn vegna framlagðrar beiðni um undanþágu frá ákvæðum skipulagsreglugerðar, enda gerði fyrra skipulag ráð fyrir að byggingar færu nálægt Beiná, þá er vísað til þess að í ánni er stífla og virkjun og því er um að ræða svæði sem er þegar raskað.

29.Frumvarp til laga um barnavernd (endurgreiðslur) mál nr. 629.

2402001

Erindi Velferðarnefndar Alþingis, dags. 31.01.2024, þar sem sent er til umsagnar 629. mál Barnaverndarlög (endurgreiðslur)



Umsagnarfrestur er til 14. febrúar nk.
Frumvarpið var lagt fram til kynningar.

30.Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu

2402007

Tilkynning Matvælaráðuneytisins, dags. 22.01.2024, um að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu sé til umsagnar á Samráðsgátt til 14.02.2024.

Umsögn fjallskilanefndar Biskupstungna liggur fyrir, sjá https://island.is/samradsgatt/mal/3642.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar vísar til ofangreindra reglugerðardraga sem birt voru í samráðsgátt stjórnvalda 17. janúar sl.
Sveitarstjórn tekur að öllu leyti undir þau atriði sem getið er í umsögn Fjallskilanefndar Biskupstungna.
Auk þess gerir sveitarstjórn athugasemdir við eftirfarandi atriði.
4. gr. Upplýsingar um nýtingu og ástand lands.
Land og skógur metur ástand lands, árangur af gróður- og jarðvegsvernd og eflingu og endurheimt vistkerfa með tilliti til mismunandi landnytja.
Hér kemur fram að Land og Skógur eigi að gera úttekt á öllu landi sem nýtt er. Hér hlýtur að vera átt við land sem nýtt er til hvers konar atvinnurekstrar, íbúabyggðar og almennrar útivistar og áhugamála sem alla jafn þarfnast nýtingar á landi.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að hér sé um ærið verkefni að ræða sem þarfnist bæði mikils tíma og mikils fjármagns og að verkefnið sé ekki fjármagnað.
11. gr. Ósjálfbær landnýting og landbótaáætlun.
Leiði eftirlit Lands og skógar eða sveitarstjórnar með ástandi lands í ljós að nýting samræmist ekki viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu.....
Hér er talað um eftirlit sveitarstjórnar. Ekkert samráð var haft við sveitarstjórn Bláskógabyggðar við vinnslu reglugerðarinnar og hefur sveitarstjórn því engar hugmyndir hvað skuldbindingar er verið að leggja á sveitarstjórn með 11.gr. Hvorki hvað varðar ábyrgð eða fjárhagslegan kostnað.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar gerir athugasemd við að ekki liggi fyrir mat á áhrifum fyrirhugaðrar reglugerðar á fjárhag sveitarfélagsins. Í 129. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að fram fari sérstakt mat á áhrifum stjórnvaldsfyrirmæla á fjárhag sveitarfélaga og ber ráðherra ábyrgð á því að slíkt mat fari fram.

Í Viðauka I, segir:
„Landsvæði með minna en 20% æðplöntuþekju ætti ekki að nýta til beitar. Í ljósi óhagstæðra vaxtarskilyrða og viðkvæmra aðstæðna ætti jafnframt að takmarka eins og kostur er að nýta til beitar land ofan 600 m hæð yfir sjávarmáli eða í yfir 30° halla“
Einnig segir:
„Miða skal við að koma í veg fyrir eða takmarka eins og kostur er búfjárbeit á landi sem ekki uppfyllir ofangreint og skal gerð grein fyrir því í landbótaáætlun“.
Síðar kemur svo skilgreining á flokki D- land sem er náttúrulega ógróið svæði með „litla vistgetu að eðlisfari og náttúrulegar eyðimerkur? þessi svæði eru viðkvæm og þarf að fylgjast sérstaklega með séu þau í nýtingu.“ Sett eru spurningamerki við þessar skilgreiningar.
Í sumum tilfellum er það þannig að land í flokki D er innan svæða sem að stærstum hluta féllu í flokk A eða B. Til dæmis brattar fjallshlíðar, áreyrar, nýlegt hraun, land nýkomið undan jökli og fleiri landgerðir sem eru og verða gróðursnauðar í tiltekinni fyrirsjáanlegri framtíð nokkurn veginn óháð því hvort á þeim verður beit eða ekki.
Það getur verið bæði óraunhæft og tilgangslaust að stýra umferð búfjár á þessi svæði, tilkostnaðurinn mikill og ávinningurinn lítill.
Ávinningur væri hins vegar mun meiri af því að einbeita sér að svæðum í flokki C. Um þau er m.a. þessi setning: „Landbótaáætlun skal hafa að markmiði að koma í veg fyrir búfjárbeit á landi í flokki C“.
Þessi einhliða áhersla á friðun er í ósamræmi við reynslu af verkefnum Landbótasjóðs og Bændur græða landið þar sem almennt er viðurkennt að víða er hægt er að ná miklum árangri með uppgræðsluaðgerðum án friðunar. Ef valið ætti að standa milli þess að eyða takmörkuðum fjármunum í girðingar annars vegar eða áburð, fræ og annað sem til uppgræðslu þarf hins vegar, mundu flestir benda á síðari kostinn. Friðun getur í einhverjum tilfellum átt rétt á sér en þessi einhliða áhersla á hana er í ósamræmi við raunveruleikann. Sveitarstjórn telur að réttara væri að orða áðurnefnda setningu á þessa leið:
„Landbótaáætlun skal hafa að markmiði uppgræðsluaðgerðir og í einhverjum tilfellum friðun fyrir búfjárbeit á landi í flokki C“
Undir fyrirsögninni „Leiðbeiningar um úrræði til að ná markmiðum sjálfbærrar landnýtingar“ :
1. Breytt afmörkun beitarlands, sem felur í sér friðun á landi sem tekur langan tíma að koma í gott ástand miðað við viðmiðunarsvæði. Innleiða má s.k. „sýndarfriðun“ sem felst í að skilgreina svæði utan beitarlands sem búfé sækir ekki inn á að jafnaði og koma í veg fyrir að búfé sem þangað gengur.
Seinni setning þessarar málsgreinar er mjög torskilin, og þarfnast skýringar.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar telur að áhrif reglugerðarinnar á íslenskan landbúnað og hinar dreifðu byggðir landsins hafi ekki verið metin. Landbúnaður og störf honum tengd eru ein af mikilvægum avinnugreinum í Bláskógabyggð. Það er alveg ljóst að ef reglugerð þessi tekur gildi óbreytt er rekstrargrundvöllur stærri sauðfjárbúa í sveitarfélaginu öllu brostinn, þar sem nær ógerningur verður að uppfylla skilyrði um sjálfbæra landnýtingu eins og hún er skilgreind í fyrirliggjandi drögum. Það er með öllu óskiljanlegt að á sama tíma og ríkisvaldið talar um mikilvægi fjölbreytts atvinnulífs í landinu skuli ráðherra leggja fram reglugerð sem hefur það að augljósa markmið að fækka verulega sauðfjárbúum í landinu. Aðeins er hægt að draga þá ályktun að ráðherra telji sauðfjárbúskap ekki mikilvæga atvinnugrein. Þá er það alveg ljóst að allt tal um mikilvægi matvælaöryggis þjóðarinnar,sem ráðamönnum er tíðrætt um, er ekki sagt af mikilli alvöru. Nema að matvælaráðherra sé að senda þau skilaboð að hann telji kjötframleiðslu ekki mikilvæga þegar kemur að matvælaöryggi þjóðarinnar.
Að endingu vill sveitarstjórn lýsa yfir vonbrigðum með að í fylgiskjalinu, Skýringar með beitarkafla, kemur eftirfarandi texti fram í kaflanum Hugtök-sjálfbær landnýting:
Sjálfbær landnýting er því landnýting þar sem starfsemi og bygging vistkerfis viðhelst eða eflist og vistkerfið er jafnframt í ásættanlegu ástandi. Þetta er mikilvægt, þar sem stór hluti landsvistkerfa landsins hafa þegar orðið fyrir verulegri hnignun og munu haldast í því ástandi nema breyting verði á nýtingu eða gripið til endurheimtaraðgerða.
Framsetningin á textanum er á þá leið að túlka má það sem svo að hnignun vistkerfa landsins megi alfarið rekja til beitar. Veðurfar,ágangur mannfólks og náttúruhamfarir eigi þar enga sök. Þá er óskiljanleg að látið sé að því liggja að aldrei hafi verið gripið til landbóta eða landgræðslustarfa að hálfu þeirra sem nýta landið, nema að orðið endurheimtaraðgerðir hafi hér e-h aðra merkingu en landbótastörf.
Þessi framsetnig er sérstaklega dapurleg þar sem hún er samin af starfsfólki Lands og Skóga sem veit mæta vel af öllum þeim fjölmörgu landgræðsuverkefnum sem unnin hafa verið um land allt af bændum þessa lands og oftast í góðu samstarfi við Landgræðsluna. Eftir vill hefur vitneskjan um það samstarf og öll þau fjölda mörgu verðlaun sem Landgræðslan veitti bændum og sveitarfélögum fyrir framúrskarandi landgræðslustörf/endurheimtaraðgerðir, tapast þegar Landgræðslan var lögð niður og ný ríkisstofnun Land og Skógar tók til starfa.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hvetur til gagngerrar endurskoðunar á áformum um setningu reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu og meira samráðs við landeigendur og sveitarfélög sem málið varðar.

31.Rekstrarleyfisumsókn Heslilundur 7 220 9129

2402008

Beiðni Sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 05.01.2024, þar sem óskað er umsagnar um rekstrarleyfisumsókn Dew Cottages ehf vegna gistingar í flokki II C, minna gistiheimili, á sumarbústaðalandinu Heslilundi 7, Bláskógabyggð.
Umsögn byggingarfulltrúa liggur fyrir. Sveitarstjórn getur ekki fallist á að gefið verði út rekstrarleyfi í samræmi við umsóknina, enda samræmist það ekki ákvæðum aðalskipulags.

32.Stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga 2024

2402003

Tilkynning Lánasjóðs sveitarfélaga, dags. 30.01.2024, þar sem auglýst er eftir framboðum til stjórnar.
Lagt fram til kynningar.

33.Miðstöð héraðsskjalasafna um rafræna skjalavörslu

2402010

Erindi stýrihóps héraðsskjalavarða, dags. 1. febrúar 2024, þar sem kynnt er stofnun miðstöðvar héraðsskjalasafna um rafræna skjalavörslu.
Lagt fram til kynningar. Sveitarstjórn fagnar áherslum á rafræna skjalavörslu.

34.Heimavist FSu

2402013

Bókun stjórnar SASS um heimavist FSu
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar tekur undir eftirfarandi bókun stjórnar SASS vegna heimavistar við FSU:
Stjórn SASS skorar á mennta- og barnamálaráðherra að beita sér tafarlaust fyrir því að óvissu vegna heimavistar við Fjölbrautaskóla Suðurlands verði eytt hið allra fyrsta. Samkvæmt upplýsingum frá skólastjórnendum þá rennur samningur um núverandi húsnæði heimavistarinnar út á vordögum 2024 og engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja nemendum sem þess þurfa húsnæðisúrræði fyrir næsta skólaár.

Það markaði tímamót þegar samningar náðust um rekstur heimavistarinnar á haustdögum 2020 eftir nokkurra ára tímabil þar sem engin húsnæðisúrræði voru til staðar. Nýtingin á heimavistinni hefur verið mjög góð og það sætir því furðu að ríkið skuli ekki ganga frá samningum um áframhaldandi rekstur hennar þegar fyrir liggur að tilboð barst frá núverandi rekstraraðila.

Heimavist við skólann er lykilatriði í því að tryggja jafnrétti til náms á starfssvæði skólans og því með öllu óviðunandi að ríkið skuli bjóða ungmennum og fjölskyldum þeirra upp á þá óvissu sem nú er uppi.

35.Ársskýrsla Seyruverkefnis 2023

2402012

Ársskýrsla Seyruverkefnisins fyrir árið 2023
Ársskýrslan var lögð fram. Sveitarstjórn þakkar Halldóru Hjörleifsdóttur fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélaganna.

Fundi slitið - kl. 11:35.

Er eitthvað á síðunni sem betur má fara?